Sex fræðslufundir um sjálfbærni í byggingariðnaði
Röð streymisfunda í samstarfi við félagasamtökin Grænni byggð er lokið í bili. Markmið fundanna var að vekja athygli og fræða iðnarmenn um sjálfbærni í byggingariðnaði. Hægt er að horfa á fundina hér að neðan í heild sinni. Sérstakar þakkir til þátttakenda og áhorfenda fyrir framtakið sem er vonandi gott og þarft innlegg í hraða þróun sjálfbærni í íslenskum iðnaði.
IÐAN fræðslusetur í samstarfi við Grænni byggð hefur staðið fyrir fyrirlestrarröð um sjálfbærni í byggingariðnaði og haldið sex morgunfundi frá síðasta hausti.
1. Naflaskoðun í sjálfbærni og umhverfisstefna BYKO
Á fyrsta fundi lýsti Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir starfsemi Grænnar byggðar. Bergur Helgason, gæða- og öryggisstjóri hjá ÞG Verk ræddi um lækkun kostnaðar og lægra kolefnisspor í endurvinnslu úrgans. Berglind Ósk Ólafsdóttir verkefnisstjóri umhverfismála hjá BYKO sagði frá umhverfisstefnu fyrirtækisins.
2. Innkaup á byggingarefnum og fyrsta Svansvottaða íbúðarhús Íslands
Í nóvember sl. Ræddi Finnur Sveinsson umhverfisfræðingur og ráðgjafi um ákvörðun hans og eiginkonunnar, Þórdísar, að byggja fyrsta Svansvottaða íbúðarhúsið á Íslandi.
Íslendingar framleiða vistvæna orku lifa af hreinum og náttúrulegum afurðum, fisk og landbúnaðarvörum og svo framvegis og auðvitað eigum við þá að búa í vistvænum húsum líka en það er síðasta púslið að hreinu og tæru Íslandi að mati Finns.
Þá ræddi Gísli Sigmundsson smiður og eigandi Breytinga ehf um sýn sína á sjálfbærni. Hann sniðgengur alfarið rotgjörn efni og segist gera betur með hverjum deginum í sínum innkaupum á byggingarefnum.
3. Svansvottaður Kársnesskóli og umhverfisstefna Húsasmiðjunnar
Í desember sk ræddi Árni Stefánsson forstjóri Húsasmiðjunnar um umhverfisstefnu fyrirtækisins og samfélagsskýrslu BYGMA.
Sandra Rán Ásgrímsdóttir sjálfbærniverkfræðingur hjá Mannvit fjallaði m.a. um sjálfbærniskýrsu fyrirtækisins og fyrirhugaða byggingu Kársnesskóla sem stefnt er að fái Svansvottun.
4. Samfélagsvottaður Selfoss og sýn á sjálfbærni
Í janúar voru gestir á morgunfundi Sigrún Melax hjá JÁVERK og Ragnar Ómarsson hjá Verkís. Sigrún fjallaði um nýjan miðbæjarkjarna á Selfossi sem mun fá samfélagsvottun Svansins. Ragnar sem er einnig stjórnarformaður Grænni byggðar sagði frá sýn sinni á sjálfbærni í byggingariðnaði.
5. Innivist og „ósjálfbærnikynslóðin“
Í byrjun febrúarmánaðar mættu þau Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, líffræðingur hjá Eflu og Ríkharður Kristjánsson, doktor í byggingarverkfræði. Sylgja ræddi um innanhúsloftgæði og innivist. Dr. Ríkharður ræddi m.a. um fjárhagslega sjálfbærni og ábyrgð hans eigin kynslóðar sem er sú ósjálfbærasta í mannkynssögunni.
6. Sorp sem auðlind og endurnýting mannvirkja
Á síðasta morgunfundinum komu dr. Sigríður Ósk Bjarnadóttir hjá VSÓ ráðgjöf og Freyr Eyjólfsson samskiptastjóri Terra. Sigríður ræddi um hönnun mannvirkja með því sjónarmiði að geta seinna meir endurnýtt bygginguna í annarri mynd (Design to disassembly). Freyr fór m.a. yfir sorphirðu og mikilvægi hennar í verðmætasköpun samfélagsins, sorp sé auðlindasköpun framtíðar.