image description

Náms- og starfsráðgjöf

Starfsfólki í iðn- og verkgreinum býðst náms- og starfsráðgjöf hjá IÐUNNI til að skoða möguleika sína í námi og starfsþróun. Markmið ráðgjafarinnar er að stuðla að auknum árangri í námi og starfi og er ráðgjöfin gjaldfrjáls. 

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins gerir samning við IÐUNA ár hvert en í honum felst að bjóða fólki á vinnumarkaði með litla grunnmenntun, náms- og starfsráðgjöf og raunfærnimat.

Náms- og starfsráðgjafar IÐUNNAR eru fjórir og hafa þeir sinnt raunfærnimati og náms- og starfsráðgjöf en að auki tekið þátt í verkefninu Fræðslustjóri að láni og farið í fyrirtækjaheimsóknir. Jafnframt er náms- og starfsráðgjöfin þátttakandi í verkefninu VISKA sem er Erasmus KA3 stefnumótunarverkefni, ásamt Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA). IÐAN og FA stýra verkefninu hérlendis fyrir hönd Mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Samstarfslönd í VISKA verkefninu eru Noregur (norska menntamálaráðuneytið), Belgía (flæmska menntamálaráðuneytið), og Írland (Quality and Qualifications Ireland-QQI og Cork Institution of Technology-CIT). Verkefnið er til 3ja ára, hófst í febrúar 2017 og lýkur 2020. Í VISKA verkefninu er áhersla lögð á að þróa viðmið og aðferðir til að draga fram og meta þekkingu, leikni og færni fullorðinna, sérstaklega með innflytjendur/flóttafólk í huga. Stuðla á að heildrænu og aðgengilegu raunfærnimatskerfi sem gagnast getur þessum hópi.  Ákveðið var að vinna með pólskum innflytjendum í verkefninu á Íslandi, þar sem þeir eru langfjölmennasti hópur innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði. Öll gögnn verða þýdd yfir á pólsku og verða túlkar í viðtölunum.

Nú styttist í að framkvæmd hefjist í VISKA verkefninu, en fyrstu raunfærnimatshóparnir sem unnið verður með eru í húsasmíði og málaraiðn. Á vorönn 2019 er svo stefnt á að taka hópa í framreiðslu, þernum og almennri starfshæfni.

Árangur í starfi

Raunfærnimat er góður kostur fyrir fólk sem hefur reynslu úr atvinnulífinu en stutta formlega skólagöngu. Með því að fara í raunfærnimat gefst einstaklingum tækifæri til að sýna fram á reynslu og færni í starfi og getur matið mögulega stytt nám til sveinsprófs eða starfsréttinda. Inntökuskilyrði í raunfærnimat eru þau að einstaklingur þarf að vera 23 ára eða eldri og hafa a.m.k. þriggja ára starfsreynslu úr viðkomandi grein og er þá miðað við fullt starf.

Á starfsárinu (júlí 2016 - júní 2017) var unnið raunfærnimat í 21 grein þar af einni nýrri; skólaþætti í ljósmyndun. Áður hafði farið fram raunfærnimat í vinnustaðaþætti í ljósmyndun en nú bættist skólaþátturinn við. Alls fóru 193 einstaklingar í raunfærnimat (mynd 1) og fjöldi staðinna eininga á árinu var 9.763 (mynd 2). Ánægjulegt er að segja frá því að metnar hafa verið um 94.000 einingar hjá IÐUNNI síðan árið 2007. Heildarfjöldi viðtala á starfsárinu var 2.103 (mynd 3).

Gott samstarf er við símenntunarmiðstöðvar landsins og er reynt að bjóða raunfærnimat víðsvegar um landið eftir því sem kostur er. Að þessu sinni voru unnin raunfærnimatsverkefni í samvinnu við flestar símenntunarmiðstöðvar á landinu.

Fyrirtækjaþjónusta

Fyrirtækjaþjónustan hefur skapað sér ákveðinn sess hjá IÐUNNI. Í henni felst að náms- og starfsráðgjafi og sviðstjóri heimsækja fyrirtæki. Þar er farið yfir námsframboð IÐUNNAR, boðið upp á sérsniðin námskeið, raunfærnimat kynnt og boðið upp á einstaklingsviðtöl fyrir starfsfólk. Á síðasta starfsári voru 138 fyrirtæki heimsótt víðsvegar um landið. Hafa heimsóknirnar borið mikinn árangur þar sem margir einstaklingar hafa til dæmis sótt námskeið og farið í raunfærnimat í kjölfarið.

Samstarf við Vinnumálastofnun hélt áfram á starfsárinu og haldnar voru tvær suðusmiðjur fyrir atvinnuleitendur, ein MIG/MAG smiðja og ein TIG smiðja.

Hafa samband

Hafðu samband

Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband