Alltaf draumurinn að klára námið
Arnar Þorsteinsson hefur starfað við málningarvinnu síðastliðin 25 ár. Hann fór í framhaldsskóla á sínum tíma og ætlaði sér alltaf klára námið og verða málari en eins og hjá svo mörgum þá gekk það ekki eftir.

„Ég flosnaði úr námi og svo komu barneignir og annað og svo var bara aldrei neinn tími. Bara vinna út í eitt, alltaf undir taxta. Alltaf vantaði þetta, hvað getur maður sagt, svona öryggisskellur í lífinu. Ég varð eitthvað svo upptekinn að ég gleymdi náminu og fannst aldrei nægur tími til að ljúka því. Þetta var samt alltaf draumurinn, að klára iðngreinina. Og núna er það loksins að gerast 25 árum á eftir áætlun. Það má segja að ég sé búinn að vera á pásu í 25 ár. Tuttugu og fimm ár! “ Segir Arnar.
Mín manneskja í Iðunni
Ég ræddi þetta við strákana í vinnunni og þeir bentu mér á að hafa samband við Iðuna fræðslusetur, sem ég gerði. Ég hringdi í Iðuna og þar fékk ég samband við náms- og starfsráðgjafa. Hún bara leiddi mig í gegnum þetta. Ég þurfti ekki annað en að segja að ég hefði áhuga á þessu. Og svo bara gekk þetta eins og við sögðum út frá því. Hún sagði það oft í upphafi, að hún væri mín manneskja hérna. Hún væri hérna fyrir mig. Þannig að ég þurfti ekki að hafa neinar áhyggjur. Þetta væri ekki eitthvað próf sem ég þurfti að fara í. Það tók mig tvær til þrjár vikur að koma því inn í hausinn á mér að það var rétt.
Hvernig virkar raunfærnimat?
Þetta er dálítið ferli, sko en maður er leiddur algjörlega í gegnum þetta hjá Iðunni. Það er eiginlega verið að komast að því hvað ég kann og get. Þú ferð í matsviðtal ekki satt, hvernig gekk það?
Gekk mjög vel. Það var dálítið stressandi og hefði viljað taka það aftur, en ég fékk heilmikið metið. Ég stytti skólann ábyggilega um tvær og hálfa önn. Ég var búinn með allt þetta bóklega á sínum tíma, en það vantaði verklega þáttinn og ég er að taka hann núna í dreifnámi í Tækniskólanum. Það gengur vel og ég stefni á útskrift um jólin.
Hverju breytir þetta fyrir þig?
Það verður bara alveg nýr heimur, algjörlega. Það breytti þessari veiku von sem var alltaf í hausnum á mér. Nú er þetta bara allt í einu orðið að veruleika. Og það hefði aldrei orðið nema út af raunfærnimatinu hjá Iðunni.
Ég stefni svo á meistaranám.
Smelltu hér ef þú hefur áhuga á því að kynna þér raunfærnimat.