Sveinsbréf afhent við hátíðlega athöfn
Í dag tóku 225 nýsveinar við sveinsbréfum í 16 ólíkum iðngreinum við hátíðlega athöfn á Hótel Hilton Nordica í Reykjavík.
Athöfnin var vel sótt og markar mikilvægan áfanga í starfsferli þessara iðnaðarmanna. Húsasmiðir voru fjölmennasti hópurinn sem steig á svið í ár en alls var 81 sveinsbréf afhent í húsasmíði. Sérstaka athygli vakti fjölmennur flokkur nýsveina í bakaraiðn sem er sá stærsti í mörg ár, alls 13 manns.
Auk fyrrnefndra greina voru sveinsbréf einnig afhent í bifreiðasmíði, bílamálun, blikksmíði, framreiðsluiðn, húsgagnabólstrun, húsgagnasmíði, kjötiðn, matreiðsla, málaraiðn, múraraiðn, pípulögnum, stálsmíði, veggfóðrun og dúkalögn og síðast en ekki síst veiðafærartækni. Þessi fjölbreytti hópur nýsveina endurspeglar mikilvægi iðnnáms og þá breidd sem er að finna í íslenskum iðnaði í dag. Afhending sveinsbréfanna markar upphaf nýs kafla í starfsferli þeirra sem fullgildir iðnaðarmenn og óskar Iðan fræðslusetur þeim öllum til hamingju með áfangann.
Myndir frá athöfn má sjá á facebook síðu Iðunnar.