Vilborg Helga Harðardóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Iðunnar fræðsluseturs
Vilborg Helga mun taka við stöðunni 2. september næstkomandi.
Eigendur Iðunnar eru: Samtök iðnaðarins, Samiðn, MATVÍS, GRAFÍA, FIT, VM, Bílgreinasambandið, Samtök ferðaþjónustunnar og Meistarafélag húsasmiða. Hlutverk Iðunnar er fyrst og fremst að bæta hæfni fyrirtækja og starfsmanna í iðnaði. Iðan þjónar sí- og endurmenntun iðngreina með markvissum hætti og er leiðandi í raunfærnimati á Íslandi.
Vilborg Helga hefur mikla stjórnenda reynslu meðal annars hjá Já hf. og Sýn hf. Hún er með MBA frá Háskólanum í Reykjavík og BA í sálfræði frá Háskóla Íslands auk þess sem hún hefur reynslu af störfum á fjármálamarkaði.
„Við bjóðum Vilborgu hjartanlega velkomna til starfa hjá Iðunni fræðslusetri. Iðan byggir á mikilli reynslu og þekkingu í sí- og endurmenntun og mun undir stjórn Vilborgar sækja enn frekar fram í nýsköpun, sjálfbærni, fræðslu og raunfærnimati,“ segir Georg Páll Skúlason, stjórnarformaður Iðunnar.