Kaffispjall um framleiðslu á stafrænu námsefni
Gerður Pétursdóttir, fræðslustjóri Isavia, fær góða gesti í kaffispjall að ræða um framleiðslu á stafrænu námsefni, námsstjórnunarkerfi og fleira sem snýr að fræðslu fullorðinna.
Isavia er stór vinnustaður enda mannfrekt verkefni að sinna rekstri flugvalla og flugleiðsögu á Íslandi. Á hverju sumri taka t.a.m. til starfa á fjórða hundrað sumarstarfsmanna sem flestir hafa ekki unnið þar áður. Fræðsla er lykilþáttur í starfsemi fyrirtækisins og allir sem hefja þar störf þurfa að ljúka viðeigandi þjálfun.
Ingibjörg Emilsdóttir og Elín Yngvadóttir eru báðar reynslumiklir kennarar og starfa sem námsbrautarstjórar í Isaviaskólanum. Veigamikill þáttur í þeirra vinnu felst í því að hanna stafrænt námsefni og setja saman bæði stór og smá námskeið og miðla til starfsmanna. Í þessu fróðlega kaffispjalli er fjallað um kosti og galla stafræns efnis, aðferðir og tól og tæki við gerð slíks efnis og miðlunar.