Góð aðsókn að Bransadögum Iðunnar

Á fjórða hundrað manns sóttu Bransadaga Iðunnar sem voru haldnir dagana 14. - 16. maí og voru helgaðir nýsköpun í iðnaði í ár.

    Um var að ræða stærsta fræðsluviðburð Iðunnar fræðsluseturs frá upphafi. Hátt í þrjátíu fyrirlesarar deildu þekkingu sinni og kynntu nýja tækni og tól sem styðja við nýsköpun í iðnaði. Upptökur af fyrirlestrum og dagskrá verða aðgengilegar öllu félagsfólki innan skamms.

    Á Bransadögum gafst félagsfólki kostur á að kynna sér nýjustu þekkingu í iðnaði frá íslensku fagfólki og fyrirtækjum í virkri nýsköpun. Erlendir fyrirlesarar gáfu góða innsýn í þróun og nýnæmi í iðnaði. Við fengum dýrmætt tækifæri til að læra af reynslu Svía en þeir Tore Karlsson kennslustjóri og Simon Dahlgren frá Skellefteå VUX héldu erindið: Skellefteå VUX/Northvolt - From ”Sleepy town to the new “Klondike” og fóru yfir þær áskoranir sem fylgdu því þegar risafyrirtækið Northvolt setti upp höfuðstöðvar sínar í smábænum Skellefteå í sveitum Svíþjóðar. Gert Nielsen frá Kaupmannahafnarháskóla ræddi um áskoranir sem fylgja gervigreind, Ulbe Jelluma frá PrintPower talaði um skemmtilegar leiðir til nýsköpunar í prent og miðlunargreinum til að mæta krísum í iðnaði. Graham Williams fjallaði um nýja aðferð við titringsmælingar og Elliot Smith sérfræðingur í tengslum við raf-og blendingsbíla hélt fyrirlestur um áskoranir rafvæðingar fyrir verkstæði.

    Nýsköpun í lokapartýi með landsliðskokkum

    Bransadögum lauk með veislu í Vatnagörðum sem vel var látið að enda var opnaður sérstakur Pop-up veitingastaður og vínstofa í húsinu. Gestir fengu að kynnast nýsköpun í matreiðslu en ein af stærstu áskorunum framtíðar er að bjóða upp á prótín sem hefur ekki neikvæð áhrif á loftslag og náttúru. Chris McClure frá Loka Food kynnti fisk úr plöntupróteinum í samvinnu við náttúrkokkinn Hinrik Carl Ellertsson. Ólöf Ólafsdóttir landsliðskokkur, Hugi Rafn Stefánsson og Björn V. Aðalbjörnsson léku listir sínar og sýndu meistaratakta í matreiðslu eftirrétta með þrívíddarprentuðum eftirréttarformum, óhætt er að segja að eftirréttirnir hafi slegið í gegn sem einstök matarupplifun. Gísli Grímsson einn af stofnendum Rætur&Vín opnaði litla vínstofu við hlið Pop-up veitingastaðarins og kynnti náttúruvín án allra aukaefna sem hafa notið mikilla vinsælda undanfarin ár.

    Blómlegt iðnaðarhverfi

    Gestir gátu einnig kynnt sér samfélagslega nýsköpunarverkefnið Blómlegt iðnaðarhverfi í bakgarði Iðunnar fræðsluseturs sem liggur við Sæbrautina. Verkefnið hefur að markmiði að bæta loft- og lífsgæði þeirra sem búa og starfa við Vatnagarða og er unnið í samstarfi við skrúðgarðyrkjumeistara frá Garðyrkjuskólanum. Gróðursettar hafa verið tré, runnar og blóm sem eru í sátt við það lífríki og gróður sem er fyrir. Þá stendur í bakgarðinum íslenskt gróðurhús frá Bambahúsum, þau eru endurunnin ír 1000 lítra IBC tönkum sem eru í daglegu tali kallaðir Bambar. Húsið mun standa við göngu- og hjólastíginn sem liggur við Sæbrautina og þar fer fram ræktun í tilraunaskyni sem tengist fræðslustarfsemi hússins.

    Upptökur af fyrirlestrum

    Við þökkum félagsfólki okkar kærlega fyrir þátttökuna og bendum þeim sem ekki komust til okkar í ár að upptökur af fyrirlestrum og dagskrá verða aðgengilegar á síðunni bransadagar.is innan skamms.

    Hafa samband

    Hafðu samband

    Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband