Svefnbærinn sem vaknaði
Ekki missa af reynslusögu Svía á Bransadögum. Hvað gerist þegar risastórt nýsköpunarfyrirtæki hefur starfsemi í litlu bæjarfélagi?
Hvað gerist þegar risastórt nýsköpunarfyrirtæki hefur starfsemi í litlu bæjarfélagi? Hvernig er best að styðja við risavöxt í atvinnulífinu á skömmum tíma? Hvernig á að halda utan um starfsmannafjölda sem vex um hundruð í hverjum mánuði? Hvar á fólkið að búa? Hvernig er hægt að undirbúa lítinn bæ svo allt fari vel?
Það er óhætt að segja að Íslendingar fái dýrmætt tækifæri til að læra af reynslu Svía á Bransadögum en hingað eru komnir þeir Tore Karlsson kennslustjóri og Simon Dahlgren frá Skellefteå VUX. Þeir halda erindið: Skellefteå VUX/Northvolt - From ”Sleepy town to the new “Klondike” fimmtudaginn 16.maí á milli 16.- og 17.00 og fara yfir þær áskoranir sem fylgdu því þegar risafyrirtækið Northvolt setti upp höfuðstöðvar sínar í smábænum Skellefteå í sveitum Svíþjóðar. Northvolt er tiltölulega ungt fyrirtæki sem sérhæfir sig í að framleiða lithium rafhlöður með umhverfisvænni hætti en margir aðrir og vinna t.d. með fyrirtækjum á borð við Volvo, BMW Group og Volkswagen.
Samvinna á milli landa í nýsköpun og fræðslu
Helen Gray leiðtogi alþjóðamála hjá Iðunni fræðslusetri hefur byggt upp sambönd við fræðslumiðstöðina VUX – Skellefteå. Síðasta vor barst henni fyrirspurn um Erasmus+ námsheimsókn frá sérkennara hjá VUX - Skellefteå. Markmiðið með heimsókninni var að kynna sér starfsemi Iðunnar og draga lærdóm af starfseminni okkar. „Þær Ann Charlott Nordenstam, Maria Walter og Elin Bolander hjá fræðslumiðstöðinni VUX höfðu áhuga á símenntun, raunfærnimati, mati og viðurkenningu á erlendu námi og frekari samvinnu. Þær lýstu vel því umhverfi og áskorunum sem þær voru að glíma við. Þær nefndu að vegna þeirra umbreytinga sem samfélagið þeirra væri að ganga í gegnum þyrftu þær á stuðningi að halda til þess að styðja við innflytjendur með lítinn eða óhefðbundinn bakgrunn í menntakerfinu til starfa á vinnumarkaði í bænum við umönnun barna og aldraðra, þjónustustörf og störf á veitingastöðum.
Ég lét Sigurð Svavar Indriðason, leiðtoga bílgreina strax vita af áhuga þeirra enda eru þessar aðstæður sem Svíar eru í eitthvað sem við viljum læra af. Þær komu í heimsókn til okkar haustið 2023 og svo fóru þeir Sigurður Svavar og Sigursveinn Óskar Grétarsson leiðtogi málm- og véltæknigreina í heimsókn til þeirra núna nýverið.“ Þeir sem hafa áhuga á mannauðsmálum, stórstígum tækniframförum í bílgreinum og vexti í iðnaði og á vinnumarkaði mega ekki láta sig vanta á þennan fyrirlestur. Lærum af Svíum! Skráning hér!