Boðar sókn í starfsnámi á Íslandi
Færniþörf á vinnumarkaði var umfjöllunarefni á Menntadegi atvinnulífsins í ár sem fór fram í Hörpu í dag.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra ræddi ný lög um farsæld barna sem varða hæfi án hindrana og einnig þrýsting á menntakerfið um breyttar áherslur og nýtt nám sem mætir þörfum atvinnulífsins.
Ný Menntamálastofnun kynnt bráðlega
Ásmundur sagði frá því að á næstu tveimur vikum verði kynnt stofnun nýrrar Menntamálastofnunar sem er ætlað að verða fagleg þekkingarmiðstöð skólaþróunar og skólaþjónustu. Samhliða verði öll námsgagnaútgáfa ríkisins endurskoðuð og þar horft til menntatæknilausna með samstarfi við nýstofnuð samtök fyrirtækja í menntatækni.
Gríðarleg fjölgun nemenda í starfsnámi næstu ár
Ásmundur ræddi um þróun verknáms á Íslandi og sagði frá greiningarvinnu innan ráðuneytis barna- og menntamála sem væri ný fyrirséð að myndi leiða af sér stóraukið vægi starfsmenntunar í landinu „Staðan á Íslandi er þannig að 33-34% nemenda eru í starfs -eða verknámi á Íslandi. Ef að við berum okkur saman við Norðurlandaþjóðirnar þá er hlutfallið um 45% og allt upp í 70% í Finnlandi,“ sagði Ásmundur og sagði alveg ljóst að hér þyrfti að gera miklu betur. „Við erum að gera ráð fyrir því í okkar spám að á næstu 8 árum þá hækki þetta hlutfall upp í 40% í þessum námsgreinum. Fram til ársins 2028 þá fjölgi um 1500-1700 nemendur í starfsnámi á Íslandi. Hins vegar má gera ráð fyrir því að fjölda nemenda í bóknámi fækki verulega eða um 500 fram til ársins til 2028 og 2100 til viðbótar til ársins 2033. Það gera í heildina 2500-3000 sem nemendur sem fækkar um í bóknámi á næstu 10 árum.“
Boðar breyttar áherslur og aukið fjármagn til starfsmenntaskóla
Þessar miklu breytingar á fjölda og samsetningu nemenda í framhaldsskólum sagði Ásmundur að myndi kalla á miklar breytingar í uppbyggingu fjármögnunar framhaldsskólakerfisins. „Auka þarf fjárfestingar í húsnæði og aðstöðu starfsmenntaskólanna á næstu árum til að geta tekið á móti auknum fjölda nemenda,“ sagði hann og sagðist hafa kynnt drög að framkvæmdaáætlun í ríkisstjórn sem gerir ráð fyrir töluverðri stækkun 8 starfsmenntaskóla vítt og breitt um landið á næstu 8 árum. Þá séu ótalin ný bygging höfuðstöðvar Tækniskólans í Hafnarfirði. Á móti þurfi að draga úr notkun húsnæðis í bóknámi. „Við þurfum að færa fjárfestinguna í verknámsskóla,“ ítrekaði hann og sagði ráðuneytið á lokametrunum að fullvinna áætlun til næstu átta ára hvernig þessum áskorunum verði mætt og boðaði töluverðar breytingar.