Matreiðslukeppni grunnskóla
Miðvikudaginn 16. nóvember fór fram Matreiðslukeppni grunnskóla þar sem nemendur í efstu bekkjum kepptu í gerð eftirrétta.
Til leiks mættu lið frá átta skólum; Álftamýrarskóla, Fellaskóla, Flóaskóla, Foldaskóla, Hlíðaskóla, Hólabrekkuskóla, Valhúsaskóla og Víkurskóla. Undirbúningur hafði staðið yfir í allt haust þar sem nemendur unnu undir leiðsögn síns kennara en fengu einnig heimsókn í skólann frá matreiðslumeistara.
Opið hús var á keppnisdegi í Húsi fagfélaganna Stórhöfða 31 fyrir foreldra og aðstandendur og mikil stemmning á verðlaunaafhendingunni í dagslok. Flóaskóli stóð uppi sem sigurvegari en var sannarlega fremstur meðal jafningja því aðeins þrjú stig skildu að fyrsta og áttunda sæti. Hreint ótrúleg frammistaða allra liða og keppenda sem komu afar vel stemmd til leiks þar sem áhugi, metnaður og jákvæðni skein af hverju andliti.
Um var að ræða samstarfsverkefni nokkurra grunnskóla, Klúbbs matreiðslumeistara og Iðunnar fræðsluseturs en meginmarkmiðið var auðvitað að hafa gaman auk svolítillar starfsfræðslu enda skólanámið a.m.k. öðrum þræði undirbúningur fyrir þátttöku í atvinnulífinu.