Það eru verðmæti í öllu brotajárni
Fólk skilar meira af málmum til sérhæfðra endurvinnluaðila í dag en áður fyrr.
„Við erum flokkunar- og móttökustöð á öllum brotamálmum og járni sem fellur til“ segir Högni Auðunsson eigandi Málmu. Hann er hér í fróðlegu spjalli við Sigursvein Óskar Grétarsson, nýjan stjórnanda málm- og véltæknihluta Augnabliks í iðnaði.
Högni segir fyrirtækið keppast við að kaupa málma til þess að koma þeim í endurvinnslu og þannig komist efni aftur í notkun í hringrásinni.
Sem dæmi nefnir Högni endurvinnslu á hvarfakútum. „Á hverjum einasta hvarfakúti er númer sem hægt er að fletta upp í gagnagrunni og finna raunverðmæti kútsins, segir hann.“ Kúturinn samanstendur af paladin, platinum og rhodium sem er verðmætasti málmur í heimi.
Efnið Rhodium er að verða búið í heiminum og ef það er ekki endurnýtt þá verður sá málmur gríðarlega dýr og að lokum klárast hann.
Helmings eignahlutur fyrirtækisins er í eigu Hollendinga sem hafa starfað í þessum bransa í hátt í 100 ár. „Við vinnum eftir þeirra ferlum“ segir Högni, „við erum ekki að finna upp hjólið heldur fylgjum vottuðum ferlum sem tryggja gæði endurvinnslunnar.“ Umfram allt er tryggt að málmurinn sé endurunnin á vistvænan hátt.
Þjónusta Málma er í boði fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki og ekkert magn er of lítið til þess að koma með í endurvinnsluna. Hægt er að fá aðstoð við flokkun sé þess óskað. Fyrirtækið tekur á móti áli, ryðfríu stáli, kopar, brassi og fleiri málmtegundum.
Hægt er að hlusta á alla þætti Augnabliks í iðnaði á Soundcloud og Spotify