Notaði krísur til að efla reksturinn

Páll Ketilsson útgefandi Víkurfrétta ræðir við Grím Kolbeinsson um fjölmiðlabakteríuna og útgáfubransann í nýjasta þætti Augnabliks í iðnaði.

Páll Ketilsson, útgefandi Víkurfrétta
Páll Ketilsson, útgefandi Víkurfrétta

  „Ég held að blaðið hafi verið fyrsta fríblaðið,“ segir Páll Ketilsson útgefandi um einn öflugasta og seigasta fjölmiðil landsins. Víkurfréttir eru einn elsti bæjarfjölmiðill landsins en fyrsta blaðið kom út 14. ágúst 1980. Auk vikublaðs rekur fyrirtækið nú tvo vefi, fréttavefinn vf.is sem stofnaður var 1995 og golfvefinn www.kylfingur.is sem hóf göngu sína 2005. Í dag starfa um 10 manns við útgáfuna en flestir starfsmenn störfuðu hjá fyrirtækinu á árunum fyrir hrun í miklum uppgangi, eða um 20 manns.

  Fjölhæfni mikilvæg

  „Í svona minni fyrirtækjum er svo mikilvægt að starfsmenn geti gert meira en eitthvað eitt, fjölmiðlamaður þarf að kunna að geta tekið myndir og að geta skrifað,“ segir Páll og segir fjölhæfni mikilvæga í starfi lítilla fyrirtækja og sérstaklega í rekstri lítilla fjölmiðla. Það geri líka starfið miklu skemmtilegra. „Á árunum fyrir hrun vorum við að gefa út í Hafnarfirði, Suðurnesjum og fyrir Golfsambandið. Þá eru komnir 20 manns í vinnu. Þá vorum við með fjóra til fimm manns bara í umbroti. Og fréttamenn brutu um líka, það voru allir þátttakendur í þessu.“

  Aðlögunarhæfni í krísum

  Víkurfréttir hefur frá stofnun verið leiðandi í útgáfu héraðsfréttablaða á Íslandi. Það var skellur fyrir blaðið þegar Pósturinn ákvað árið 2020 að hætta að sinna dreifingu á blaðinu en Páll segir mikilvægt að sýna aðlögunarhæfni í krísum. Heimsfaraldurinn krafði hann einnig um að breyta til í rekstri blaðsins. „Í langan tíma á útgáfutíma blaðsins höfum við notað þjónustu póstsins. En svo gerist það 2020 fljótlega fyrir árarmót að við fáum tilkynningu um að þeir ætli að hætta að dreifa fyrir okkur strax 1.maí á næsta ári. Svo kemur heimsfaraldur ofan í þetta. Við tókum ákvörðun að hætta að prenta og mér gafsst tími til að styrkja rafrænu útgáfuna og þurfti ekki að hugsa um dreifinguna. Svo fann ég fyrir þrýstingi um að fá blaðið á pappír aftur,“ segir Páll og segist eftir íhugun síðasta sumar hafa tilkynnt á skrifstofunni: „Jæja, nú byrjum við að prenta aftur!“

  Hagræðing og betri þjónusta

  Páll segist prenta minna en áður enda sé stærri hópur fólks vanur því að sækja sér blaðið á netinu. Hann dreifir blaðinu á bensínstöðvar og verslanir og segir fólk sem vilji pappírsútgáfuna duglegt að grípa blaðið. Það sé einnig skilvirkara því blaðið rati sannarlega aðeins til þeirra sem vilja það. Hagræðingin sem fylgir sé mikill kostur. „Það er miklu ódýrara fyrir mig að gera þetta heldur en að eyða sjö milljónum á ári í dreifingu með Póstinum.“

  Hafa samband

  Hafðu samband

  Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband