Réttingabransinn, nýjar kröfur og vinnubrögð
Þeir Valur Helgason og Gunnlaugur Jónsson bifreiðasmiðir eru með áralanga reynslu í réttingum bíla og segja þeir umhverfi breytast hratt. Vinnubrögðin þurfa að fylgja því eftir.
Tilkoma hátæknibíla hefur kallað á miklar tæknibreytingar á síðustu árum segir Gunnlaugur og slíka bíla þarf að laga eins og aðra bíla. Til þess þarf að uppfæra búnað verkstæða og læra á hann sem hefur verið mikil áskorun. Valur tekur undir það og bendir á að mörg verkstæði hafi verið dugleg að uppfæra sig en segir jafnframt að það megi gera betur yfir heildina.
Helstu áskoranir verkstæða í dag er að ná að fara eftir auknum kröfum framleiðenda og að fylgja viðgerðarleiðbeiningum þannig að öryggi bílsins sé ekki ábótavant. Því er gríðarlega mikilvægt að verkstæði séu með þá þekkingu sem þarf til þess að framfylgja réttu vinnulagi.
Neytendur eru oft ekki meðvitaðir um þær breytingar sem hafa orðið á stálvirki bíla. Við lendum stundum í því að fólki finnst við skipta út of stórum hluta miðað við sjáanlegt tjón en við þurfum alltaf að huga að öryggi bílsins og þeim efnum sem hann er búinn til úr. Sveigjanleiki stuðara á t.d. að vera fjaðurmyndaður en ekki harður og efnasamsetning bílsins á að gefa eftir á ákveðinn hátt. Þar af leiðandi eiga sumir partar að kubbast í sundur við högg og þetta er alveg ný hugsun segja þeir félagar.