Sjálfsiglandi og rafmagnsknúin flutningaskip munu minnka kolefnissporið í sjávarútvegi
Hröð þróun sem á sér stað líka á Íslandi, segir Kristján Kristjánsson sviðsstjóri málm- og véltæknisviðs
Fyrsta sjálfsiglandi og rafmagnsknúna flutningaskip heims var kynnt í Noregi á dögunum og það er skýrt dæmi um þróunina og fjórðu iðnbyltinguna í framkvæmd. Í fyrstu mun skipið, Yara Birkeland, sigla með lítilli áhöfn en stefnt er að því á næstunni að áhöfninn verði algjörlega óþörf.
Þetta er þróun sem hefur átt sér stað síðustu 30-40 ár en margir muna eftir danska tilraunaverkefninu þar sem áhafnarmeðlimum var fækkað úr 20 í 9, Project Skip. Á Íslandi hefur þessi þróun einnig verið í gangi og má þar til dæmis nefna Vestmannaeyjaferjuna Herjólf. Á henni eru að vísu sjómenn en miðað við einfaldleika siglingaleiðarinnar milli Vestmannaeyja og Landeyjarhafnar ætti auðveldlega að fækka áhafnarmeðlimum. Þetta er að koma á næstu árum. Yara fór med 120 gáma af áburði frá verksmiðju í Porsgrunn til Brevik-hafnar um það bil 25 km leið. Þrátt fyrir skamma vegalengd var sigling Yöru Birkeland krefjandi og siglt í gegnum þröngan fjörð, undir tvær brýr þar sem er mikil umferð báta og skipa og lagt að bryggju í fjölfarinni höfn. Siglingin markaði tímamót enda eru árlega farnar um 40 þúsund ferðir díselknúinna vörubíla á ári með áburð á milli staða. Til mikils sé að vinna í því að minnka kolefnissporið í flutningum.
Jostein Braten, verkefnisstjóri skipsins, nefnir einnig öryggisatriði í siglingum. „Mikið af atvikunum sem eiga sér stað á skipum eru vegna mannlegra mistaka, til dæmis vegna þreytu,“ sagði hann í viðtali við AFP fréttastofuna í tilefni fyrstu siglingar skipsins. Skipið er 80 metrar og 3200 tonn að þyngd. Hefðbundnu vélarrými hefur verið skipt út fyrir átta rafhlöðuhólf og afkastagetan er 6,8MWst og uppsprettan úr endurnýjanlegu vatnsafli. „Eins og 100 Teslur,“ útskýrði Braten fyrir leikmönnum. Sjávarútvegur er ábyrgur fyrir tæpum þremur prósentum af allri kolefnislosun af mannavöldum. Í Noregi er stefnt að því að draga úr losun um 40 prósent árið 2030 og 50 prósent árið 2050.
Eftir Kristján Kristjánsson. Heimildir: AFB News. Mynd:Yara.