Prentiðnaðurinn er í dag grænn iðnaður
Díana Sigurfinnsdóttir viðskiptastjóri hjá Prentmet Odda er reynslubolti í faginu. Hún segir stórar breytingar hafa átt sér stað í prentgeiranum frá því að hún hóf störf
Það eru miklar tæknibreytingar og framfarir í þessum iðnaði en einnig mikill samdráttur segir Díana. Landslagið er allt annað í dag heldur en fyrir tíu árum þegar við framleiddum bækur fyrir stóra erlenda aðila og vorum með sölumann erlendis í fullu starfi. Það var ævintýralega skemmtilegur tími segir hún.
Díana segist alltaf hafa unnið með miklum fagmönnum og við fengum oft furðulegar beiðnir segir hún. Þannig fundum við oft skemmtilegar lausnir sem juku orðspor Odda gríðarlega. Það voru margir sem vildu vera í viðskiptum við Odda.
Hún segir að við megum ekki gleyma því að það er hægt að prenta harðspjaldabækur hér heima en tilhneigingin hefur verið sú undanfarin ár að sú vinna hefur farið úr landi. Við erum að keppa við lönd þar sem launakostnaður er töluvert lægri. Stóru útgáfurnar eru meira og minna að láta prenta allt erlendis, það eru helst einstaklingar og félagasamtök sem kjósa að láta prenta heima.
Miklar breytingar hafa einnig átt sér stað í umhverfisvernd og með tilkomu nytjaskóga breytist landslag prentunar. Það er okkar hlutverk að upplýsa viðskiptavini og almenning um að prentiðnaðurinn er orðinn grænn iðnaður og prentsmiðjur Svansvottaðar. Sú þróun hefur verið til mikilla bóta segir Díana og er bjartsýn á framtíðina. Umbúðaprentunin er að koma mjög sterk inn segir hún en ég sakna bókaprentunarinnar gríðarlega.