Hringrásarhagkerfið er græna leiðin í byggingum
Við vitum flest að hitastiga jarðar hefur hækkað á síðustu öld. Milliríkjanefnd Sameinuðu Þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) spáir því að hitastig jarðar muni hækka um 0,3 til 4,8°C á næstu hundrað árum.
Hitastig jarðar hefur nú þegar hækkað um 0,8°C á síðustu hundrað árum. Mikil hröðun hefur átt sér stað á síðustu 30 árum þar sem 75% af hækkuninni hefur átt sér stað á þeim tíma. Vísindamenn eru almennt sammála um að hlýnun jarðar sé af mannavöldum. Það hefur verið mikil aukning í losun á gróðurhúsalofttegundum þá sérstaklega kolefnis á síðustu árum vegna aukins iðnaðar.
Ég er burðarþolsverkfræðingur í grunninn og ég hef verið að vinna í loftslagsmálum síðan ég fór út í framhaldsnám til Bandaríkjanna árið 2008. Ég hef verið að skoða hvernig (eða hvort) loftslagsbreytingar munu hafa áhrif á veðurfar og þar af leiðandi hið byggða umhverfi. Ég hef fundið að loftslagsbreytingar geta leitt til þess að úrkoma getur orðið meiri, að úrkomudögum geti fjölgað og að öfgaveður geta orðið bæði öflugri og tíðari. Ef svo er? Þurfum við þá ekki að taka mið af þessum breytingum þegar við hönnum byggingar og önnur mannvirki? Getum við hreinlega hannað byggingar miðað við að veðurfar haldist stöðugt, þ.e.a.s. að það muni ekki breytast yfir líftíma byggingarinnar? Þurfum við ekki að taka mið af þessum breytileika í veðurfari og því álagi sem byggingarnar okkar verða fyrir?
Þetta eru þær spurningar sem hafa legið til grundvallar í mínum rannsóknum síðan ég fór út í framhaldsnám. Árið 2018 þá flyt ég heim frá Bandaríkjunum og byrja að vinna hjá verkfræðistofunni VSÓ Ráðgjöf. Ég er ráðin til þess að þróa og stýra Grænu leiðinni hjá VSÓ sem veitir ráðgjöf varðandi sjálfbærni í mannvirkjagerð. Þegar ég fjalla um loftslagsmál og byggingariðnaðinn þá eru tvær megin hliðar á þessu stóra vandamáli;
- Þurfum við að gera eitthvað öðruvísi til þess að takast á við þær breytingar í veðri og álagi sem eru nú þegar farnar af stað?
- Getum við byggt öðruvísi eða úr öðrum efnum til þess að tryggja að byggingariðnaðurinn sé að leggja sitt af mörkunum til þess að draga úr losun kolefnis?
Hingað til hefur þáttur byggingariðnaðarins í loftslagsbókhaldi Íslands verið vanmetinn og lítið til umræðu. Það er ekki búið að áætla heildarlosun frá byggingariðnaði á Íslandi en sú vinna hófst í byrjun árs 2021 á vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar. Verkefnið ber nafnið Byggjum grænni framtíð og er samstarfsverkefni helstu hagaðila í byggingariðnaðinum. VSÓ Ráðgjöf tekur þátt í verkefninu og ég er hópstjóri mælingarhópsins sem er með það hlutverk að mæla eða meta kolefnislosun frá byggingariðnaði á Íslandi. Þegar við sjáum tölur úr þessari vinnu getum við markvisst farið að meta ávinning í aðgerðum og í framhaldinu þróa lausnir sem lágmarka losun frá byggingum og öðrum mannvirkjum.
Á heimsvísu er áætlað að byggingariðnaðurinn sé ábyrgur fyrir u.þ.b. 40% af kolefnislosun á heimsvísu. Þessar tölur sýna greinilega að byggingariðnaðurinn er mikilvægur hlekkur í að tryggja sjálfbærni komandi kynslóða. Hringrásarhagkerfið er ein af mörgum lausnum sem minnka kolefnisspor byggingariðnaðarins. Mig langar að nýta þetta tækifæri til þess að fjalla aðeins um hringrásarhagkerfið og hvernig ég held að það muni leika lykilhlutverk í að stuðla að lausnum fyrir byggingariðnaðinn sem er eðli sínu mjög íhaldsamur. Eins og staðan er í dag þá er byggingariðnaðurinn að mestu byggður á línulegu hagkerfi, þ.e.a.s. byggingarvörur eru framleiddar, notaðar og svo að lokum er þeim fargað. Það er þessi línuleiki byggingahagkerfisin sem veldur því að byggingariðnaðurinn er ábyrgur fyrir u.þ.b. 40% af hráefna- og auðlindanotkun heims, 40% af kolefnislosun og yfir 40% af manngerðum úrgangi. Samfélagið er farið að kalla eftir aðgerðum í loftslagsmálum og því er eitt af meginmarkmiðum Reykjavíkurborgar í drögum að Loftslagsáætlun fyrir árin 2021-2025 að innleiða „hringrásarhugsun“. „Hringrásarhugsun“ snýst um að innleiða nýja hugsun í hönnun og efnismeðhöndlun þannig að ekki sé gengið á náttúrulegar auðlindir og að úrgangur til urðunnar heyri sögunni til. Mikilvægt er að fasteignaeigendur horfi til þeirra tækifæra og aðgerða sem felast í hringrásarhagkerfinu og geti markað sér framtíðarstefnu um sjálfbæra uppbyggingu. Helstu sérfræðingar í þessum málefnum áætla að það sé hægt að minnka kolefnislosun frá byggingariðnaði um 38% ef hringrásarhugsun er beitt.
Hvernig eigum við að innleiða hringrásarhugsun í byggingariðnaðinn?
Það er umhverfisvænast að byggja ekkert nýtt. Við þurfum þess vegna að horfa á þær byggingar sem við eigum nú þegar sem efnisbanka þar sem við erum að „geyma“ byggingarefni fyrir næsta notkunarfasa. Fasteignaeigendur geta látið framkvæma Endurnotknunaráætlanir til þess að kortleggja fasteignasöfnin sín. Markmiðið með þessum áætlunum er að hámarka virði eigna og stuðla þannig að sjálfbærni með að nýta betur eða selja byggingarhluta sem áður hefði verið fargað. Endurnotkunaráætlunin inniheldur magntöku á helstu byggingarhlutum. Áætlunin felur í sér greiningu á leiðum til þess að endurnýta byggingarhluta sem og mögulegum endurvinnslufarvegum fyrir efni sem ekki er hægt að endurnýta. Þá er einnig hægt að meta það kolefnisspor sem sparast við að endurnýta byggingarhlutana. Með því að endurnýta byggingarhluta í framtíðarverkefni er hægt að draga verulega úr kolefnisspori sem og varðveita náttúrulegar auðlindir.
Við þurfum líka að endurhugsa hvernig við hönnum byggingar og byggingarhluta. Það þarf að hanna sérstaklega þannig það sé hægt að taka byggingar eða hluta af byggingum í sundur. Það þarf að skoða hvernig við getum náð þessum markmiðum og staðist álagskröfur frá jarðskjálftum og vindi. Það þarf einnig að tryggja þegar hringrásabyggingar eru byggðar að frágangur sé vandaður þannig að hægt sé að komast að tengingum án þess að rýra virði byggingarhlutana. Það þarf að setja af stað fræðslu, t.d. á vegum Iðunnar, þar sem áhugasamir geta fræðast um það hvernig á taka byggingu í sundur til þess að varðveita byggingarhluta. Það er mikil þróunarvinna sem þarf að eiga sér stað þannig að við getum hannað og byggt byggingar sem hægt er að taka í sundur og endurnýta. Með þessu tryggjum við sveigjanleika í byggingum og hámörkum nýtingargildi byggingarhluta og stuðlum þannig að sjálfbærri þróun.
Ég sé fyrir mér framtíð þar sem við erum búin að kortleggja allar byggingar á Íslandi og skilgreina endurnotkunar möguleika á byggingum, byggingarhlutum og byggingarefnum. Ég sé fyrir mér að við hönnum hús sem er hægt að púsla saman á marga vegu og endurnýta miðað við breyttar þarfir samfélagsins.
Höfundur: Sigríður Ósk Bjarnadóttir, Byggingarverkfræðingur Ph.D., Sérfræðingur í sjálfbærni og loftslagsmálum í mannvirkjagerð, verkefnastjóri Grænu leiðarinnar hjá VSÓ Ráðgjöf.