Nýtt vefnám í umbúðahönnun
„Ég held að umbúðir framtíðarinnar verði meira gagnvirkar, tæknin hefur fyrir löngu smeygt sér inn í umbúðahönnun,“ segir María Manda umbúðahönnuður og kennari á prent- og miðlunarsviði IÐUNNAR. María Manda hefur undanfarið unnið að nýjum og áhugaverðum vefnámskeiðum um umbúðahönnun og segir frá bakgrunni sínum og áherslum.
María Manda er þrautreyndur sjálfstætt starfandi umbúðahönnuður og listamaður. Hún hefur áður kennt umbúðahönnun hjá IÐUNNI fræðslusetri en hefur nú sett saman afar metnaðarfull vefnámskeið þar sem er farið ítarlega í öll helstu atriði umbúðahönnunar. Á vefnámskeiðinu gefst nemendum tækifæri til að byggja upp þekkingu sína á umbúðahönnun í vel skilgreindum skrefum.
Ört vaxandi iðnaður
Slík þekking er forsenda þess að geta tekið þátt í þeim öra vexti sem spáð er um umbúðahönnun og framleiðslu. Iðnaði sem tekur stórstígum breytingum í takt við kröfur samtímans um umhverfisvæna en örugga framleiðslu. Námskeiðin henta bæði hönnuðum og umbrotsfólki, sölumönnum og þeim sem starfa að markaðsmálum og hafa áhuga á hönnun.Hönnun ævistarfið
Hver er þinn bakgrunnur í hönnun/grafískri miðlun?
„Það er smá saga að segja frá því. Ég hafði áhuga á arkitektúr og skráði mig í byggingaverkfræði í HÍ en eftir fyrsta kynningarfund þar sá ég að þetta var ekki fyrir mig og tók strætó beint þaðan í Iðnskólann í Reykjavík og skráði mig viku of seint í tækniteiknarann. Ég kláraði námið en hef aldrei starfað við það. Tveimur árum seinna ´83 var ég komin í nám í fatahönnun við FIDM í LA í Kaliforníu og eftir heimkomu þaðan vann ég á hönnunardeild Álafoss í eitt ár. Síðan starfaði ég sem sjálfstæður búninga- og fatahönnuður í tólf ár þar til að ég réð mig sem formhönnuður umbúða hjá gömlu Kassagerð Reykjavíkur ´97. Vann þar í sex ár en síðasta árið mitt tók ég grafíska miðlun utan skóla við Tækniskólann. Vorið 2004 hóf ég svo störf sem formhönnuður og grafískur hönnuður hjá Prentmet og starfaði þar í 6 ár þegar ég stofnaði mitt eigið umbúðahönnunarfyrirtæki, Umbúðasmiðjuna. Ég lokaði smiðjunni 2015 en hef síðan starfað sem „freelance“ umbúðahönnuðu samhliða leiðsögumannsstarfi.“
Hönnunin gefur fjárhagslegt öryggi
Þú ert einnig listamaður og sinnir myndlist, hvernig vinnur þetta saman?
„Ég hef alltaf haft gaman af myndlist og sótt mörg námskeið í gegnum tíðina. Ég hefði sennilega átt að fara í Listaháskólann en gerði það ekki. En hönnunin hefur gefið mér fjárhagslegt öryggi svo hún varð ofan á. En núna reyni ég að sinna listinni eins mikið og ég get og gerðist nýlega meðlimur í ART67 Galleríi þar sem ég sýni og sel verkin mín.“
Að fanga auga viðskiptavinarins
Hvað einkennir góða umbúðahönnun?
„Ég myndi halda að það væri breytilegt eftir vöru og markaði. En umbúðahönnun sem nær að aðgreina vöruna frá samkeppnisvörunni, fanga auga viðskiptavinarins og fá hann til að draga vöruna til sín, verja vöruna og létta meðhöndlun sé nokkuð góð.“ Það er flókið að segja frá því í stuttu máli hvað hönnuðir eiga að leggja áherslu á í umbúðahönnun en ef þú mættir bara velja þrjú orð sem lýsa hönnuninni, hver yrðu þau? „Hugmyndaauðgi, þekking og vandvirkni.“
Bréfpokarnir koma aftur
Hugsar viðskiptavinurinn öðruvísi í dag en áður? Er meiri hugsun um umhverfissjónarmið til dæmis?
„Já, fólk er almennt meðvitaðra en áður um umhverfið þegar kemur að umbúðum. Þrýstihópar hafa myndast í samfélaginu sem minna stöðugt á umbúðanotkun og þá sérstaklega plastið, fólk notar í meira mæli t.d. margnota innkaupapoka og bréfpokarnir eru að koma aftur. Síðan eru það þeir sem vilja sleppa umbúðum alveg. Við erum bara, búin að koma okkur upp svo miklu regluverki í kringum umbúðir að það verður erfitt að gera það. Mörg fyrirtæki hafa markað sér umhverfisvæna stefnu og vilja selja heilbrigða vöru í umhverfisvænum umbúðum til viðskiptavina sem eru þannig þenkjandi. Það var meira hér áður fyrr að það var nægjanlegt ef umbúðirnar litu út fyrir að vera umhverfisvænar en voru það ekki endilega. Eins og að snúa brúnu hliðinni út í stað þeirrar hvítu. Núna skoða menn meira úr hverju pappírinn er samsettur, hvar og hvernig unninn sem er auðvitað umhverfisvænna.“
Vakning í þágu umhverfis
Hvað hefur breyst í efnisvali hönnuða í umbúðum?
„Ég held að flestir hönnuðir reyni eftir bestu getu að nota umhverfisvænna efni hvort sem það er í umbúðunum eða vörunni sjálfri. Mikil vakning er í því að endurvinna og endurnýta. Vinna gegn t.d. matarsóun með því að skapa eitthvað nýtt úr úrgangi o.s.frv. En svo megum við ekki gleyma því að til þess að hönnuðir geti valið umhverfisvænna efni þurfa þau að vera í boði og þar koma fyrirtækin inn sem hafa fyrir löngu hafið þróun á sínum vörum eins og umhverfisvænna plasti eða efnum sem geta komið í staðin fyrir plast o.s.frv. Mörg fyrirtæki bæði lítil og stór hafa markað sér umhverfisstefnu í þessum málum ekki síst vegna þrýstings frá markaðnum og hönnuðum.“
Blöskrar stundum pakkningarnar í Costco
Hvað er á útleið? Er eitthvað í hönnun umbúða sem þykir ekki eiga við lengur?
„Ég hef nú ekki spáð í það. En það er eins í umbúðahönnun og annarri hönnun og tísku að allt gengur í hringi. Það sem mér dettur helst í hug vera á útleið er að pakka stærra en nauðsynlegt er. Þar á ég við, að áður fyrr pökkuðu menn litlum og dýrum vörum í stærri umbúðir svo viðskiptavininum fannst hann fá meira fyrir peninginn það hefur aðeins breyst. Mér blöskrar nú reyndar stundum pakkningarnar í Costco en það eru margir sem forðast plastið ef það er hægt. Ég myndi segja að menn séu að reyna að koma plastinu út.“
Framtíðin er gagnvirk
Hver er framtíðin í umbúðahönnun?
„Ég held að umbúðir framtíðarinnar verði meira gagnvirkar. Sú þróun er löngu hafin. Það er langt síðan að umbúðaefni kom á markað sem breytti lit eftir ástandi kjötvara. Flöskumiðar sem þú myndar með símanum þínum lifna við o.s.frv. Tæknin hefur fyrir löngu smeygt sér inn í umbúðahönnun og það á bara eftir að aukast.“
Ef þú mættir velja þér draumaverkefnið að takast á við, hvert væri það?
„Mörg af þeim verkefnum sem ég hef þegar unnið hafa verið draumaverkefni og fleiri eiga eftir að koma til mín. Námskeiðin fyrir Iðuna fræðslusetur eru t.d. eitt að því sem mig hefur lengi langað að gera.“
Opnað hefur verið fyrir skráningar á fyrstu tvö námskeiðin í umbúðahönnun, grunnur í umbúðahönnun og formhönnun. Opnað verður á skráningu á enn fleiri námskeið í vor, grafíska hönnun umbúða, framleiðslu umbúða og umhverfisvænar umbúðir.