Sleggjudómar um fjölpóst
„Hvers vegna er Reykjavíkurborg að berjast gegn dreifingu á upplýsingum á pappír til almennings, upplýsingum sem oft eru gagnlegar og jafnvel mikilvægar?
Þetta vinnur gegn prentiðnaðinum og því starfsfólki sem þar vinnur,“ segir Þorkell Sigurlaugsson viðskiptafræðingur og formaður velferðarnefndar Sjálfstæðisflokksins í aðsendri grein í Morgunblaðinu laugardaginn 15.ágúst sl. um framtak Reykjavíkurborgar að senda límmiða á borgarbúa þar sem þeim er boðið að afþakka fjölpóst og stuðla að minni pappírsnotkun.
„Nýlega barst í póstkassann fjölpóstur með límmiða sem á stóð „ afþakkaðu fjölpóst og stuðlaðu að minni pappírsnotkun “ . Fyrst hélt ég sendinguna vera frá Íslandspósti og liður í sparnaðarátaki þeirra við að minnka útburð og lækka kostnað. En svo sá ég að þetta var merkt Reykjavíkurborg,“ segir Þorkell sem segir að við nánari eftirgrennslan hafi hann séð frétt um fjölpóstinn á vef Reykjavíkurborgar þann 10. júlí sl.
Framtakið sé ekki í þágu umhverfis
„Þar kom fram að Reykjavíkurborg dreifir miðum heim til íbúa sem gerir þeim kleift að afþakka ómerktan fjölpóst með því að setja merkimiða utan á póstkassann. „ Þannig getur fólk stuðlað að minni notkun auðlinda, vegna pappírs, prentunar og dreifingar og vegna söfnunar og endurvinnslu á pappírnum “, eins og segir frá Reykjavíkurborg. Hægt er að velja þrenns konar límmiða eftir því hvað er afþakkað og fjölda fríblaða sem óskað er eftir.“
Þorkell segir ýmsar spurningar hafa vaknað um framtakið og rökstyður efasemdir sínar um að framtakið sé í þágu umhverfis. „Er ekki verið að draga úr möguleikum fyrirtækja og einstaklinga til að auglýsa sína þjónustu þegar Reykjavíkurborg hvetur einstaklinga til þess að loka fyrir mikilvæga dreifileið upplýsinga?
Þegar fjallað er um sjálfbærni pappírs og prentiðnaðar er mikilvægt að horfa til margvíslegra sleggjudóma sem eru viðhafðir í garð pappírs. Pappírsiðnaðurinn er leiðandi á heimsvísu í sjálfbærum aðföngum, endurnýjanlegri orku og háu hlutfalli endurvinnslu,“ bendir Þorkell á og vísar í nýtt upplýsingarit sem var gefið út í vor af Samtökum iðnaðarins, IÐUNNI fræðslusetri, prentsmiðjum í Samtökum iðnaðarins, stéttarfélaginu Grafíu og pappírsinnflytjendum. Ritið ber nafnið „Sleggjudómar og staðreyndir um pappír og prent“.
Sleggjudómar og staðreyndir um prentiðnað
Í ritinu er farið yfir eftirfarandi sleggjudóma og staðreyndir um prentiðnað og pappír:- Sleggjudómur. Pappírsnotkun felur í sér mikla sóun.
Staðreynd. Pappír er ein mest endurunna vara heims.
- Sleggjudómur. Pappír er slæmur fyrir umhverfið.
Staðreynd. Pappír er ein fárra raunverulega sjálfbærra vara.
- Sleggjudómur. Pappírsframleiðsla er orsök losunar gróðurhúsalofttegunda um allan heim.
Staðreynd. Orkan sem er notuð til framleiðslunnar hér á landi er að mestu endurnýjanleg.
- Sleggjudómur. Rafræn samskipti eru betri fyrir umhverfið en pappírsbundin samskipti.
Staðreynd. Rafræn samskipti hafa einnig veruleg áhrif á umhverfið.
- Sleggjudómur. Stafræn tækni er ákjósanlegur samskiptamáti.
Staðreynd. Margir neytenda meta mikils samskipti á pappír.
Umhverfisvænn prentiðnaður
Þorkell nefnir sem rétt er að prentiðnaðurinn hefur átt undir högg að sækja og að stór hluti bókaprentunar sé farinn úr landi. „Flestar prentsmiðjur eru með Svansvottun á Íslandi og allar prentsmiðjur í Samtökum iðnaðarins eru umhverfisvottaðar. Enginn iðnaður á Íslandi er eins umhverfisvottaður og prentiðnaðurinn.
Aðeins efsti hlutinn af trénu, um 13%, er nýttur í pappírsiðnaðinn og annað er nýtt í vistvæn hús, húsgögn og orkunotkun. Á einu ári tekur eitt tré að jafnaði til sín 22 kg af koltvíoxíði og gefur frá sér súrefni. Þegar eitt tré er fellt vegna pappírsiðnaðar eru gróðursett að lágmarki þrjú á móti.
Nytjaskógar vaxa hraðar og þannig næst að hleypa meira súrefni í andrúmsloftið ásamt því að draga úr koltvíoxíði. Líkt og tré þá tekur pappír koltvíoxíð úr andrúmsloftinu og gefur frá sér súrefni. Ef við drögum úr pappírsnotkun verður síður forsenda hjá skógarbændum að gróðursetja og þá eykst koltvíoxíð í andrúmsloftinu og súrefni minnkar.“
IKEA bauð sérstakan merkimiða á póstkassann
Þá sé markpóstur mikilvægur og öflugur auglýsingamiðill. „Það gildir t.d. um efnismikla vörulista eins og IKEA-vörulistann sem dreift er sem fjölpósti. Einnig Bókatíðindi sem dreift er skömmu fyrir jól. IKEA hefur þurft að grípa til þess ráðs að bjóða sérstakan merkimiða á póstkassann ef fólk vill fá IKEA-bæklinginn. Með því að vinna gegn fjölpósti er verið hindra að almenningur geti fengið áhugaverðar og jafnvel mikilvægar upplýsingar frá ýmsum félögum og félagasamtökum,“ bendir Þorkell á og segir að betur færi á því að Reykjavíkurborg nýtti sér það tækifæri sem felist í dreifingu upplýsinga á pappír til íbúa einstakra hverfa.
Netnotkun veldur umhverfisáhrifum
„Það væri liður í auknu íbúalýðræði og betri upplýsingamiðlun til almennings, t.d. varðandi breytingar á deiliskipulagi eða öðrum skipulagsmálum.“
Þorkell bendir einnig á þá staðreynd að netnotkun hafi einnig áhrif á umhverfið.
„Um 4,3 milljarðar eða 60% jarðarbúa nota internetið. Netnotkun veldur tæplega 4% af heildarútblæstri gróðurhúsalofttegunda sem er svipað og vegna flugsamgangna í normal ári. Margar gagnlegar upplýsingar um kolefnisspor netnotkunar fást á vef BBC. Sjá: https://www.bbc.com/future/article/20200305-why-your-internet-habits-are-not-as-clean-as-you-think “
Og hann nefnir sérlega skemmtilegt dæmi um orkunotkun.
„Sem dæmi um orkunotkun má nefna að lagið Despacito með Justen Bieber frá 2017 er búið að spila 6.8 milljarða sinnum á Youtube og orkunotkunin við það jafngildir orkunotkun um 55.000 heimila í Bandaríkjunum á einu ári,“ segir Þorkell en streymi á myndböndum veldur miklu útstreymi gróðurhúsalofttegunda.
„Það skiptist nokkurn vegin í þrjá hluta, 1/3 er vegna Netflix og sambærilega streymisveitna https://www.carbonbrief.org/factcheck-what-is-the-carbon-footprint-of-streaming-video-on-netflix. Síðan er um 1/3 vegna Youtube, bíómynda og þess háttar og 1/3 vegna streymis á klámi. Það þarf frekari fræðslu til almennings um hvernig má minnka kolefnisspor netnotkunar. Það mætti til dæmis benda starfsfólki fyrirtækja á að senda „hlekki“ með tölvupósti innan fyrirtækja, en ekki senda alla skrána. Með venjulegum tölvupósti er kolefnissporið eingöngu 4 g CO2 , en ef mynd er send með getur það verið um 50 g CO2 og streymi á myndböndum veldur mun meira útstreymi gróðurhúsalofttegunda.“
Skiptir sköpum fyrir skógarbændur
Og Þorkell brýnir í lokin fyrir lesendum að pappírsnotkun og þar með prentun á pappír skipti sköpum fyrir skógarbændur. Notkunin sé hluti af þeirri hringrás sem þar til að halda sjálfbærri þróun gangandi.„Um pappír og notkun hans má segja eftirfarandi:
• • Endurvinnsluhlutfall pappírs og pappa er hærra á Íslandi árið 2018 en í flestum nágrannalöndum okkar eða um 93%. Til samanburðar er endurvinnsluhlutfall plasts á Íslandi um 56% (Umhverfisstofnun, 2020).
• • Skv. evrópskri rannsókn kjósa neytendur að lesa prentaða útgáfu bóka (72%), tímarita (72%) og dagblöð/fréttir (55%) frekar en stafræna útgáfu (www.twosides.info/concumer-choice/).
• • Sífellt vaxandi hlutfall pappírs er framleitt úr sjálfbærum skógum og enginn pappír er framleiddur úr trjám regnskóga.
• • Skógareyðing er ekki af völdum pappírsiðnaðar. Pappírs- og prentiðnaður er ábyrgur og sjálfbær.
Til umhugsunar fyrir lesendur áður en þið afþakkið fjölpóst! Þið gætuð misst af gagnlegum upplýsingum. Með því að nota pappír stuðlum við að ræktun nytjaskóga og leggjum þannig okkar lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Í skógum eru veruleg tækifæri í bindingu kolefnis með aukinni ræktun og bættri umhirðu. Allt þetta skiptir máli fyrir velferð okkar í framtíðinni.“