Íslandsmót iðn- og verkgreina er hafið

Dagana 13.–15. mars 2025 fer fram Mín framtíð 2025, Íslandsmót iðn- og verkgreina í Laugardalshöll og framhaldsskólakynning.

    Mín framtíð hefur verið árlegur stórviðburður og er mótið í ár þar engin undantekning. Keppt er í 19 faggreinum og glíma keppendur við raunveruleg og krefjandi verkefni sem kalla fram fjölbreytta hæfni, skapandi hugsun og framúrskarandi fagmennsku. Það er óhætt að segja að þarna fari fagfólk framtíðarinnar.

    Ásamt keppnisgreinunum verða 19 sýningargreinar á mótssvæðinu og kennir þar margra grasa. Meðal sýningargreina eru hljóðtækni, megatronics, rennismíði, blómaskreytingar og búfræði. Sumar þeirra leyfa gestum og gangandi að prófa handtökin.

    Samhliða mótinu fer fram framhaldsskólakynning og fimmtudag og föstudag heimsækja rúmlega 9000 grunnskólanemendur Höllina að kynna sér námsframboð framhaldsskólanna. Í ár er sérstök áhersla lögð á mikilvægi iðn- og verkgreina og svokallaðra Steam-greina (vísindi, tækni, verkfræði, listsköpun og stærðfræði) Laugardagurin 15. mars (10:00 - 15:00) nk. er sérstakur fjölskyldudagur. Þá verður skemmtileg dagskrá í boði fyrir alla fjölskylduna. Aðgangur er ókeypis að Höllinni alla dagana.

    Við munum að sjálfsögðu fylgjast vel með mótinu á miðlum Iðunnar.

    Hafa samband

    Hafðu samband

    Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband