Viltu keppa á Euroskills, Evrópumóti iðn- og verkgreina?
EuroSkills er einstakur viðburður þar sem ungt fagfólk víðsvegar að úr Evrópu kemur saman til að keppa í fjölbreyttum iðn- og verkgreinum.

Euroskills er stærsta mót sinnar tegundar í Evrópu og fá þar um 600 þátttakendur tækifæri til að láta ljós sitt skína. Keppnisgreinar eru 38 og kennir margra grasa, allt frá trésmíði og hársnyrtingu til stafrænnar hönnunar og forritunar.
EuroSkills 2025 verður haldin í Herning í Danmörku dagana 9. - 13. september og ætlar bílgreinin í fyrsta sinn að senda fulltrúa til að keppa í EuroSkills fyrir íslands hönd í bifvélavirkjun (e. automobile Technology).
Vilt þú taka þátt fyrir Íslands hönd?
Framkvæmdin verður á höndum Iðunnar fræðsluseturs og leitum við nú að hópi áhugasamra einstaklinga sem hafa áhuga á að taka þátt í keppninni. Úr þessum hópi verður valinn einn þátttakandi til að keppa fyrir hönd Íslands. Þátttakandinn þarf að vera 25 ára eða yngri á árinu og æskilegt er að viðkomandi hafi lokið sveinsprófi og hafi unnið í einhver tíma í faginu.
Euroskills er krefjandi keppni og viðkomandi þarf að vera tilbúinn að leggja hart að sér í undirbúningi fyrir keppnina. Hver sem verður fyrir valinu fær sérstaka þjálfun af svonefndum Expert, en það er sérfræðingur sem fylgir þátttakanda á mótið. Æskilegt er að viðkomandi hafi góða grunnþekkingu á flestu sem viðkemur viðhaldi, viðgerðum og bilanagreiningu bifreiða en geti einnig unnið vel undir pressu og hafi mikinn vilja til að læra nýja hluti.
Það er ágætt að hafa í huga að EuroSkills er ekki aðeins keppni heldur kjörið tækifæri til að uppgötva nýja hluti, kynnast nýjustu tækni og fylgjast með bestu iðnaðarmönnum framtíðarinnar í sínu fagi.
Viltu verða fyrirmynd í faginu? Sæktu um hér.
Umsóknafrestur er til og með 1. apríl 2025
Allar frekari upplýsingar veitir Sigurður Svavar Indriðason (sigurdur@idan.is), leiðtogi bílgreina hjá Iðunni fræðslusetri.