Öryggisskóli iðnaðarins stofnaður og Ásdís Gréta ráðin leiðtogi
Öryggisskóli Iðnaðarins var stofnaður nú í upphafi árs.

Skólinn er í jafnri eigu Iðunnar fræðsluseturs og Rafmenntar. Meginmarkmið skólans er að stuðla að aukinni öryggismenningu í iðnaði og þar með fækkun slysa. Skólinn mun hvort tveggja bjóða fræðslu og þjálfun og er unnið að því að skólinn geti hafið starfsemi síðar á árinu. Megináhersla í upphafi verður lögð á byggingariðnaðinn. Fjöldi vinnuslysa sem tilkynnt er um í byggingariðnaði hefur tvöfaldast frá árinu 2020 og sjö dauðaslys orðið á sl. 5 árum. Þessari þróun er brýnt að snúa við.
Ásdís Gréta Hjálmarsdóttir hefur verið ráðin sem Leiðtogi Öryggisskóla iðnaðarins og hóf hún störf í byrjun febrúar. Ásdís er menntuð sem bifvélavirki og lauk sveinsprófi árið 2007. Hún útskrifaðist með B.Sc. í Orku- og umhverfistæknifræði frá Háskóla Íslands árið 2013. Ásdís hefur viðtæka reynslu af öryggis-, gæða-, þjónustu- og verkefnastjórnun. Ásdís var á námssamningi hjá Ræsi ehf. og hefur m.a. starfað hjá Brimborg og Arctic Adventures. „Það er mikil þörf á að innleiða bætt öryggi og öryggismenningu í atvinnulífinu. Það eru krefjandi verkefni framundan sem verður spennandi að takast á við og vera partur af svona mikilvægu verkefni“ segir Ásdís Gréta Hjálmarsdóttir.
„Í bygginga- og mannvirkjagerð starfa um 16 þúsund manns og hefur starfsfólki í greininni farið fjölgandi. Við erum stolt af því að standa að Öryggisskóla iðnaðarins. Með því er tekið jákvætt skref í þá átt að bæta öryggismenningu og vinnuaðstæður starfsfólks enda tíðni slysa og dauðsfalla í byggingariðnaði óásættanleg. Ásdís Gréta, leiðtogi skólans, er með reynslu sem nýtist vel í þessu mikilvæga verkefni, bæði úr iðnaði en einnig af öryggis- og verkefnastjórnun“ segir Vilborg Helga Harðardóttir, framkvæmdastjóri Iðunnar fræðsluseturs.
„Við erum afar ánægð með að Öryggisskóli iðnaðarins skuli nú hafa verið stofnaður. Við væntum mikils af góðu samstarfi jafnt við atvinnulífið og opinbera aðila, enda mikil þörf á að snúa bökum saman til að fækka vinnuslysum og útrýma dauðaslysum í byggingariðnaði. Við bjóðum Ásdísi Grétu hjartanlega velkomna til starfa og hlökkum til að vinna með henni“ segir Þór Pálsson framkvæmdastjóri Rafmenntar.
Nánari upplýsingar um Öryggisskóla iðnaðarins veitir Ásdís Gréta Hjálmarsdóttir, leiðtogi skólans (asdis@oryggisskolinn.is).