Fólk segist ekki nenna að eiga bækur á heimilinu
Ragnheiður Jónsdóttir rithöfundur haslar sér völl sem rithöfundur
„Bóksala er alltaf að dragast saman, forsendan fyrir því að bókamenning þrífist er að fólk kaupi bækur,“ segir Ragnheiður Jónsdóttir rithöfundur sem skaust fram á sjónarsviðið 2023 með frumraun sína Blóðmjólk og hlaut fyrir hana glæpasöguverðlaunin Svartfuglinn. Fyrir jól gaf hún út sína aðra bók; Svikaslóð sem hlaut afar góðar viðtökur. Ragnheiður kom í spjall til Kristjönu Guðbrandsdóttur í hlaðvarp Iðunnar, Bókaást og lýsti því vel hvernig er að vera nýgræðingur í stétt rithöfunda og því hvernig henni gekk að halda sér á floti í jólabókaflóðinu.
„Ég heyri svo oft að fólk nenni ekki að kaupa sér bækur. Heimilið fyllist af bókum. Ég er að hvetja fólk til að endurhugsa þetta,“ segir hún. „Við kaupum okkur ekki buxur sem við ætlum að eiga út ævina,“ tekur hún sem dæmi og segist hvetja fólk til að styðja við íslenskar bókmenntir með því að kaupa bækur og gefa þær hreinlega áfram ef það vill ekki eiga þær lengi.