Hvetur aðra nýsveina til að kýla á það og leita ævintýra
„Kýlið á það,“ segir Hekla Guðrún Þrastardóttir nýsveinn í bakstri sem fór á Erasmus+ styrk til Vínarborgar og hvetur aðra nýsveina til að leita að ævintýrum og tækifærum með Erasmus+ áætluninni.
Hekla Guðrún fékk sjálf að upplifa skemmtilegt ævintýri en fyrr á árinu starfaði hún í frönsku handverksbakarí, Parémi í miðborg Vínar. Hekla Guðrún segir frá ævintýrum sínum í nýjasta hlaðvarpi Iðunnar, Ævintýri í Evrópu.
„Mér fannst þetta spennandi, bakaríið eiga hjón og maðurinn er franskur. Þetta er lítið og sætt bakarí. Það er mikið af flottum vörum og mjög fjölbreyttum,“ segir Hekla Guðrún sem segir fleiri hafa starfað með henni í bakaríinu í gegnum Erasmus+ áætlunina, til dæmis frá Þýskalandi og Noregi. Nám í bakstri er mismunandi milli þessara landa en Hekla Guðrún segist hafa staðið sterk á svellinu með sveinsprófið sitt frá Íslandi. „Í náminu ytra er miklu meiri sérhæfing,“ segir Hekla Guðrún og á við konditornámið. „Á meðan að hér tökum við þetta í einum pakka, sem hjálpaði mér mikið.“
Hún dvaldi í Vínarborg í fjóra mánuði og líkaði vel lífið í borginni. Fjölskylda hennar var dugleg að koma í heimsókn og þótt að hún væri ekki komin langt í þýskunámi þá gekk henni vel og fannst tækifærin mörg að læra nýja hluti. Hún nýtir sér lestarkerfið til að fara á milli staða og líkar vinnugleðin sem hún fann fyrir í bakaríinu. Reyndar líkaði henni svo vel að eftir áramót flytur hún til Vínarborgar.
„Það var frekar snemma sem ég hugsaði að ég væri til í að vera þarna og það voru allir af vilja gerðir til að hjálpa mér. Þau buðu mér vinnu og ég fer og byrja að vinna í byrjun janúar,“ segir Hekla Guðrún sem hlakkar til ævintýranna framundan.