Magnað ferðalag sem hófst á flugsýningu í Reykjavík
Kjartan Hreinsson, grafískur hönnuður, segir frá bókinni um Óla K. blaðaljósmyndara
Ekki gera sér allir grein fyrir því hvað hönnun og umbrot bóka er persónulegt ferli. Kjartan Hreinsson grafískur hönnuður og ljósmyndari lýsir vinnu sinni við bókina Óli K sem mögnuðu ferðalagi.
Ferðalagi sem hófst á táknrænan hátt á flugsýningu í Reykjavík þar sem Kjartan rakst á höfund bókarinnar, sagnfræðinginn Önnu Dröfn Ágústsdóttur.
Brautryðjandinn og blaðaljósmyndarinn Óli K var nefnilega forfallinn flugáhugamaður og Kjartan var meira að segja í forláta flugmannsleðurjakka þegar þau Anna spjölluðu um þá hugmynd hennar að gera bók um hann. Nú er bókin komin út en í henni eru birtar hundrað fimmtíu og fimm myndir Óla K sem fanga íslenska sögu og mannlíf á áhrifamikinn hátt.