Haustfundur Eigna- og viðhaldsstjórnunarfélags Íslands
Eigna- og viðhaldsstjórnunarfélag Íslands hélt á dögunum haustfund sinn í Hafnarfirði.
Félagið, sem var stofnað snemma árs 2009, hefur verið öflugur vettvangur fyrir þekkingarmiðlun og umræðu um eignastýringu og viðhaldsstjórnun hér á landi. Það er fullgildur meðlimur í European Federation of National Maintenance Societies (EFNMS) síðan 2016 og vinnur markvisst að því að auka þekkingu og nýsköpun í eigna- og viðhaldsstjórnun ásamt því að byggja upp tengslanet í greininni.
Eigna- og viðhaldsstjórnunarfélag Íslands er óhagnaðardrifið félag og hefur m.a. lagt áherslu á að lengja líftíma tækjabúnaðar, draga úr orkunotkun og stuðla þannig að betri nýtingu auðlinda. Þetta er mikilvæg nálgun í nútímaumhverfi þar sem fyrirtæki leggja aukna áherslu á sjálfbærni og minnkun kolefnisspors.
Fræðsla og vottun í forgrunni
Félagið hefur lagt mikla áherslu á námskeiðahald og þekkingarmiðlun, m.a. í samstarfi við Iðuna. Steinar Ísfeld Ómarsson, formaður félagsins, ásamt Guðmundi Jón Bjarnasyni, fulltrúa á Evrópuvettvangi, greindu frá því að mikil vinna hefur verið lögð í að þróa námskeið og vottunarprógramm í samstarfi við evrópska félaga. Markmiðið er að efla faglega hæfni og styrkja stöðu eignar- og viðhaldsstjórnunar á Íslandi. Félagið hefur komið að fjölda verkefna, svo dæmi sé tekið þá vann félagið með öðrum aðildarfélögum Erasmus+ verkefni þar sem gerð var námskrá fyrir eigna- og viðhaldsstjórnun, ásamt því að koma að þýðingu staðla á íslensku og fræðslu sem tengist málefninu. Á haustfundinum tóku fyrstu Íslendingarnir við viðurkenningu sem evrópskt vottaðir eigna- og viðhaldsstjórar. Útkoma eftir námskeið og próf sem haldin voru hjá Iðunni undir verkstjórn Eigna- og viðhaldsstjórnunarfélags Íslands í samvinnu við Idhammar og SVUH.
Eigna- og viðhaldsstjórnunarfélag Íslands stendur þannig framarlega í því að leiða umræðu og framkvæmd á sviði eignastýringar með skýra framtíðarsýn um sjálfbærni, þekkingaruppbyggingu og aukin gæði í viðhaldsstjórnun.