Áhugi á list og hönnun ýtti Dagnýju í nám í prentun
Dagnýju Dís Bessadóttir líður vel í starfsnámi sínu í prentun í Prentmet Odda. Iðan fræðslusetur fór á vettvang og heimsótti Dagnýju og ræddi við kennara hennar í faginu, Marínó Önundarson.
Hún stefndi á grafíska miðlun en eftir heimsókn í prentsmiðjuna fannst henni áhugaverðara að velja sér frekar sérsvið í prentun. Hún hefur mikinn áhuga á formum, litum og áferð og nýtur sín í því að finna bestu útkomuna með því að prufa sig áfram og fá svo sjálfan gripinn í hendur.
Hún segist hafa fengið góða þjálfun í forvinnslu og hönnun í Adobe forritum í grunnnámi í hönnun í VMA á Akureyri. Þaðan flutti hún til Reykjavíkur og skráði sig í Tækniskólann í nám í Upplýsingatækniskólanum og fékk þar sterka innsýn í undirbúning fyrir prentun. „Maður lærði alla keðjuna sem er mjög nytsamlegt,“ segir Dagný.
Marinó, sem starfar bæði sem kennari við Tækniskólann og prentari í Prentsmiðjunni Prentmet Odda, segir grunnatriði greinarinnar kennd í kennslustofunni en mikilvægt sé að fá fyrirtækin í samstarf í námslotum til að skerpa á þekkingunni áður en nemendur fara á samning. Þannig verði til lifandi áhugi á faginu.