Hildur er fulltrúi Íslands á Norðurlandamóti í málaraiðn
Hildur Magnúsardóttir Eirúnardóttir er hrifin af verkefnastýrðu námi í Tækniskólanum og stefnir á sveinspróf og stúdentspróf um áramótin. Iðan fór á vettvang og ræddi við Hildi og Halldór Benjamín Guðjónsson kennara skólans um nám í málaraiðn.
Hildur er Íslandsmeistari í málaraiðn og er nítján ára gömul. Um áramótin tekur hún bæði stúdents- og sveinspróf frá Tækniskólanum. Í morgun hófst Norðurlandamót í málaraiðn í Ráðhúsi Reykjavíkur og er Hildur fulltrúi okkar Íslendinga. Hún segist full tilhlökkunar og er reynslunni ríkari eftir þátttöku á Íslandsmótinu á síðasta ári. Keppnin verði heldur erfiðari enda keppir hún við þau bestu frá Norðurlöndum og þá sé tímaramminn í verkefnum þröngur.
Fékk nóg af bókum
Hildur hóf nám í málaraiðn sextán ára gömul og kom beint til náms eftir 10.bekk Austurbæjarskóla. „Ég var komin með nóg af bókum og vildi fá að gera eitthvað í höndunum,“ segir Hildur og segist hafa þörf fyrir skapandi nám. „Námið hér er verkefnastýrt, það eru engin próf og við erum metin af frammistöðu okkar í verkefnum.“ Hún segist vilja vinna að lokinni útskrift að minnsta kosti ár og ætlar að gefa sér tíma í að skoða næstu skref. Eitt er víst að Hildur hefur um fjölmarga kosti að velja, hvort sem um er að ræða vinnu eða famhaldsnám í iðngreinum, handverki, hönnun og listgreinum enda byggir nám í málaraiðn á breiðara grunni en margir vita.
Gefandi að kenna í verkefnastýrðu námi
Halldór Benjamín Guðjónsson málarameistari og kennari í málaraiðn í Tækniskólanum segir frá náminu og segir gefandi að fylgjast með nemendum blómstra í verkefnastýrðu námi í málaraiðn. Mikil aðsókn er í námið og komast færri að en vilja. Æ fleiri stelpur sækja um að læra iðnina en á Norðurlöndum er hlutfall kynjanna fremur jafnt í málaraiðn. Halldór segir námið fjölbreytt og skapandi. Nemendur læri ekki eingöngu hefðbundna húsamálun, heldur læri um varðveislu húsa og handverk. Hann minnir á að málarar hafi löngum skreytt kirkjur landsins, bæði veggi, glugga og muni.
Iðan mun fylgjast með Norðurlandamóti í málaraiðn sem fram í Ráðhúsi Reykjavíkur. Mótið hófst í morgun og því lýkur á föstudag. Fimm Norðurlandaþjóðir taka þátt.