Virðisaukandi þjónusta og vöruþróun hjá Kalda
Iðan fór á vettvang í Kalda brugghús sem er fyrsta handverksbrugghús á Íslandi sem var stofnað árið 2006.
Hjónin Agnes Sigurðardóttir og Ólafur Þröstur Ólafsson tóku U-beygju í lífinu eftir að Ólafur slasast á fæti og gat eftir það ekki stundað sjóinn eins og hann hafði gert undanfarin 26 ár. „Lífið lék við okkur, maðurinn minn var á sjó og ég var að finna í fiskverkun og í verslun. Eftir slysið þá var kominn tími til þess að athuga hvað við gætum gert við líf okkar,“ segir Agnes frá en þau hjónin áttu fjögur börn og höfðu alið þau upp í bænum.
„Á þessum tíma snerist allt líf á Árskógssandi um sjómennsku og við vorum mjög hugsi um hvað við gætum gert í okkar stöðu,“ segir hún en þau hjón gátu ekki hugsað sér að flytja burt frá Árskógasandi og fengu hugmynd að brugghúsinu eftir að hafa horft á frétt í sjónvarpinu um auknar vinsældir micro-brugghúsa. „Sýnt var viðtal við danskan bruggmeistara og mér fannst fréttin tala beint til. Föðuramma mín var langt á undan sinni samtíð varðandi íslenska vatnið, hún bar svo mikla virðingu fyrir því og minnti okkur oft á að fara varlega með þessa dýrmætu auðlind.“
Þau hjón ákváðu strax að fara til Danmerkur. „Viku eftir að við horfðum á þáttinn erum við komin til Danmerkur og það er fyndið að segja frá því að okkar stærsta áskorun á þeim tíma var að fá pössun fyrir börnin okkar, við höfðum aldrei komið til Danmerkur!“
Eftir ferðina fóru hjólin að snúast og nokkru seinna fengu þau aðstoð við að tengja sig við bruggmeistara í Tékklandi. Frá stofnun hafa þau lagt áherslu á að byggja ofan á þekkingu sína. Nú starfa hjá þeim íslenskir bruggmeistarar og Kaldi byggir stöðugt við þekkingu sína. Þau stunda virka vöruþróun og nýsköpun og segja mikilvægt fyrir þá sem starfa í litlum bæjarfélögum að vera stöðugt að huga að virðisaukandi þjónustu.