Örnámskeið og stafrænar viðurkenningar í hótel- og veitingagreinum

Nýlega var gengið frá samningi um þátttöku Iðunnar fræðsluseturs í þróunarverkefninu
Upskilling the EU Hospitality Industry with Portable Micro-Credentials (MCEU).

  Verkefnið hlaut 900 þúsund evra styrk úr KA2 – Erasmus+ styrkjaáætlun Evrópusambandsins og miðar að því að þróa stafræna örfræðslu og örgráður (e. micro credentials) í því skyni að styðja við símenntun og viðbótarþjálfun (e. upskilling) starfsfólks í hótel- og veitingageiranum.

  Verkefnið er til þriggja ára og er stýrt af UCN háskólanum (University college Nordjylland) í Danmörku en þátttakendur koma frá fimm þjóðlöndum og þess má geta að ásamt Iðunni þá taka Samtök ferðaþjónustunnar einnig þátt. Vinnan fer að mestu fram á vefnum í gegnum Microsoft Teams en samkvæmt skipulaginu eru aðeins sjö staðbundnir fundir áætlaðir þar sem allur hópurinn hittist.

  Helen Williamsdóttir Gray, leiðtogi alþjóðaverkefna, stýrir verkefninu fyrir hönd Iðunnar. Helen segir að innan Evrópusambandsins sé vakning að eiga sér stað hvað varðar þróun og innleiðingu á örfræðslu og stafrænum vottunum á námi. Sá skilningur sé til staðar að slík nálgun geri fólki einfaldara um vik að afla sér nauðsynlegrar færni fyrir þátttöku á vinnumarkaði sem er í stöðugri þróun. Viðurkenndar stafrænar vottanir tryggi svo að færnin sé skjalfest á óyggjandi hátt og þannig framseljanleg á milli vinnustaða, landa eða jafnvel heimsálfa. Staðreyndin er því miður sú að falsanir á vottunum og viðurkenningarskjölum hverskonar er umfangsmikill iðnaður.

  Helen segir enn fremur mikilvægt að taka fram að örfræðsla komi ekki í stað hefðbundinnar menntunar eða námskeiða heldur sé um að ræða hreina viðbótarþjálfun til að mæta bæði óskum fólks og kröfum vinnumarkaðarins.

  Iðan fræðslusetur sinnir símenntun fyrir fagfólk í iðnaði. Þar er boðið upp á fjölbreytt námskeið og fræðslu á fjölmörgum sviðum, bæði sérhæfð og almennari. Stefna Iðunnar er að gera fyrirtækjum og starfsfólki kleift að öðlast nýja þekkingu og færni í takt við breytingar og þarfir á hverjum tíma.

  MCEU - logo

  Hafa samband

  Hafðu samband

  Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband