Sigurvegarar í keppni um matreiðslu- og framreiðslunema ársins 2023
Glæsillegur hópur nema tók þátt í keppninni sem er undanfari fyrir Norrænu nemakeppnina 2024
Þriðjudaginn 24. október sl. fór fram keppnin um matreiðslu- og framreiðslunema ársins 2023. Keppnin var haldin í Hótel- og matvælaskólanum í Kópavogi. Eins og við var að búast var keppnin mjög spennandi og skildu aðeins örfá stig keppendur að í lokin. Þegar upp var staðið voru það tveir framreiðslunemar og tveir matreiðslunemar sem sigruðu keppnina og munu þeir keppa fyrir Íslands hönd í Norrænu nemakeppninni sem fram fer í Helsinki dagana 25.-27. apríl 2024.
Sigurvegarar í framreiðslu voru:
Daníel Árni Sveinsson frá Monkeys Restaurant
Elvar Halldór Hróar Sigurðsson frá veitingastaðnum Moss í Bláa Lóninu
Sigurvegarar í matreiðslu voru:
Andrés Björgvinsson frá Hótel Reykjavík Grand
Sindri Freyr Ingvarsson frá Vox Hilton
Fyrirkomulag keppninnar var með þeim hætti að matreiðslunemar byrjuðu á skriflegu prófi og að því loknu elduðu þeir forrétt og aðalrétt fyrir fjóra þar sem sellerírót var notuð sem aðalhráefni í forréttinn og íslenskt lambalæri í aðalréttinn. Framreiðslunemarnir byrjuðu einnig á skriflegu prófi og að því loknu dekkuðu þeir upp veisluborð fyrir tvo gesti með blómaskreytingu, tveimur kvöldverðarservíettubrotum og einu hádegisservíettubroti til hliðar. Þá pöruðu nemarnir vín við fjögurra rétta matseðil, blönduðu tvo kokteila og eldsteiktu ávexti.
Allir keppendur voru leystir út með viðurkenningum og gjöfum. Matreiðslunemarnir fengu fallega gjafaöskju með olíum og ediki í frá Garra heildverslun og framreiðslunemarnir fengu fallega vínkaröflu í boði GS Import. Þá fengu sigurvegararnir glæsilegan verðlaunabikar til eigna.
Iðan óskar þeim til hamingju með árangurinn.