Gervigreind í sjálfvirknivæðingu véla
Sindri Ólafsson tæknistjóri gervigreindar hjá Marel ræðir um framþróun í iðnaði og gervigreind, nýsköpunarmenningu í Marel og námið í húsasmíði sem reyndist góður grunnur.
„Við þurfum að búa yfir sterkri gagnrýnni hugsun“ segir Sindri Ólafsson verkfræðingur og tæknistjóri gervigreindar hjá Marel um þá eiginleika sem fólk þarf að búa yfir í þeirri iðnbyltingu sem nú stendur yfir. Bakgrunnur Sindra er áhugaverður. Hann hóf nám í húsasmíði og átti bara eftir stuttan tíma í starfsnámi og að taka sveinsprófið þegar hrunið varð 2008. Vegna ástandsins í samfélaginu átti hann ekki kost á að klára starfsnámið og byrjaði því í byggingartæknifræði í Háskólanum í Reykjavík sem honum fannst hljóta að eiga vel við húsasmíðina. Hann ætlaði sér alltaf að klára sveinsprófið en kynntist hins vegar grunnforritun í námi og varð heillaður og skipti yfir í hátæknifræði.
Óhræddur að taka upp skiptilykilinn
Sú hugsun og fagþekking sem smiðir þurfa að tileinka hafi hins vegar nýst honum vel bæði í námi, lífi og starfi. Ekki síst sú reynsla að aðlaga verkefni að raunveruleikanum á verkstað. Hann sé óhræddur við að taka upp skiptilykilinn og skrallið og að ganga í ýmis verkefni. „Það að hafa þessa reynslu á verkstað veitir manni öryggi í því að hugsa út fyrir kassann.“ Sindri fór í meistaranám í Chalmers tækniháskólann í Gautaborg og lagði stund á Megatronics. Hann einblíndi á mælitækni í sínu námi og að vinna með skynjara. „Hvernig maður getur fengið nákvæmustu skynjaragildin. Á vélamáli var ég að spyrja: Hvernig sjá vélar?“ Að loknu námi fékk hann spennandi starf hjá Marel við þróun skurðarvélmenna.
Öflug nýsköpunarmenning í Marel
Marel er fyrirmyndarfyrirtæki í því að styðja við og efla nýsköpun. Sindri segir margt í menningu fyrirtækisins stuðla að góðri nýsköpunarmenningu. Það sé ýtt undir sjálfstæð vinnubrögð og sköpunargleði „Menningin er öflug með það að gera að fólk er opið fyrir því að nota nýja tækni til að leysa flókin vandamál. En svo er mikið af metnaðarfullu og kláru og skemmtilegu fólki sem maður hefur tækifæri ti að vinna með á hverjum degi, þó að ég sitji hér og ræði hvað við erum að gera, þá er ég ekki ein heldur hluti af stóru teymi. Það er gríðarlega gaman að fá tækifæri til þess að vinna í fjölbreyttum iðnaði. Við erum með starfsstöðvar um allan heim þannig að maður er daglega í samskiptum við fólk úti um allan heim með fjölbreyttan bakgrunn,“ segir Sindri og segir það bæði spennandi og krefjandi að fá að útvíkka sjóndeildarhringinn.
Í þessu fróðlega viðtali ræðir Sindri ítarlega um starf sitt hjá Marel, notkun gervigreindar í að stýra skurðarvélmennum og fleiri verkefnum og segir frá sinni sýn á þróun tækninnar í iðnaði næstu ár.