Figma hefur skotist upp á stjörnuhimininn

Mikil eftirspurn eftir hönnuðum með þekkingu á After Effects

Steinar Júlíusson
Steinar Júlíusson

    Það er mikil vöntun á hönnuðum og umbrotsfólki með þekkingu á After Effects enda er hreyfihönnun orðin að grunnþekkingu í hönnun og umbroti. Figma er öflugt forrit sem getur stutt á skemmtilegan hátt við vinnu í forritinu. Steinar Júlíusson hreyfihönnuður á Brandenburg kennir á After Effects í vetur og gefur innsýn í möguleika Figma.

    Steinar er einn fremsti hreyfihönnuður landsins og hefur sterkt vald á forritinu After Effects. Í Danmörku er hreyfihönnun orðin hluti af grunnnámi í námi sem er skylt grafískri miðlun (media grafiker). Hér á landi getur félagsfólk nýtt sér símenntun til þess að efla sig í notkun forritsins því Iðan býður upp á öflugt námskeið í After Effects. Við ræddum við Steinar um After Effects og notkun forritsins en í vetur ætlar hann líka að kynna notkun forritsins Figma sem einnig er mikið notað í stafrænni hönnun.

    Hvað er After effects og hvernig nýtist það í umbroti og hönnun?

    „After Effects er alhliða forrit þegar kemur að video og hreyfihönnun, sérstaklega í tvívídd (2D). Þetta er nokkuð aðgengilegt, byrjendur eiga nokkuð auðvelt með að tileinka sér grunnatriði þessa forrits. Þetta er nokkurs konar „industry standard,“ þeir hönnuðir sem leggja stund á hreyfihönnun þekkja meira og minna allir inn á After Effects. “

    Hvað er Figma og hvernig tengist það After Effects?

    „Figma hefur skotist upp á stjörnuhimininn sem grundvallar hönnunartól fyrir vefhönnuði og forritara. Það er opið „cloud-based“ forrit og er framúrskarandi þegar kemur að því að vinna með öðrum í rauntíma. Það var hannað frá grunni með stafræna notkun að leiðarljósi. Hægt að búa til vefsíður eða smáforrit, allt frá því að vera uppkast yfir í það að vera fullbúin vefsíða. Þar að auki eru nokkrir skurðpunktar á milli Figma og After Effects þar sem þau geta stutt við hvort annað.“

    Hvers vegna ættu hönnuðir og umbrotsfólk að tileinka sér að nota After effects?

    „Það vex með manni, það getur verið bæði einfalt og flókið. Einnig er vöntun á markaðnum eftir fólki sem býr yfir After Effects kunnáttu. Forritið nýtist í auglýsingabransanum, kynningarmálum, bíómyndum, sviðslistum, kennslu og svo mætti lengi telja.“

    Geturðu nefnt dæmi um nýlega hreyfihönnun sem þér finnst áhugaverð?

    „JKR Global gerði mjög flott branding video fyrir M&Ms sem vert er að skoða.“

    Og jafnvel sem þú hefur komið að?

    „Við á auglýsingastofunni Brandenburg erum sífellt að vinna með spennandi og áhugaverðum fyrirtækjum. Gott dæmi um það er samstarf okkar við Krónuna nýverið, en þau fengu smá andlitslyftingu fyrr á þessu ári. Ég var það lánsamur að fá að taka þátt í þeirri vinnu.

    „Viðskiptavinir eins og NOVA, VÍS, Isavia Indó, Blush, Amnesty, Bioeffect, Vífilfell, Orkan ásamt fleirum hafa einnig kosið að vinna með okkur að alls kyns frábærum verkefnum og flestir af þessum viðskiptavinum eru mjög opnir fyrir því að nýta sér hreyfihönnun.“

    Hvað heldur þú um þróunina og svona það sem er framundan í hreyfihönnun?

    „Þróunin er hröð í þessum geira, sífelldar nýjungar eins og gervigreind koma upp á yfirborðið. Þetta eru skemmtileg tól sem vel er hægt að nýta sér. Hins vegar er það svo að það sem er alltaf sígilt og stendur upp úr, er hvað það er mikilvægt að geta miðlað frá sér sterkri frásögn, að geta sagt frá og heillað áhorfandann með sér. Sama hvaða trendý aðferð er notuð til þess.“

    Næsta námskeið verður 17. október og hægt er að skrá þig að það hér

     

    Hafa samband

    Hafðu samband

    Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband