Iðnaðarfyrirtæki þurfa að fjárfesta í rannsóknum
og styðja við nýsköpunarmenningu innan fyrirtækja sinna
„Fyrirtæki sem setja nýsköpun á oddinn eru sveigjanlegri, sýna meiri seiglu þegar hart er í ári og óttast ekki breytingar,“ segir Nanna Elísa Jakobsdóttir viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði Samtaka iðnaðarins í nýjasta hlaðvarpi Augnabliks í iðnaði um nýsköpun.
Nanna ræðir um mikilvægi nýsköpunar í íslenskum iðnaði, stuðning stjórnvalda og sýn Samtaka iðnaðarins á framtíðina. Fjárfesting í rannsóknum og þróun og sérfræðiþekkingu er lykill að aukinni nýsköpun í íslensku atvinnulífi.
Nýsköpun hefur vaxið gríðarlega mikið að undanförnu. „Nýsköpun á sér að stórum hluta stað í iðnaði þar sem við erum að þróa vörur, nýja tækni og framleiðsluaðferðir,“ segir Nanna en þegar Samtök iðnaðarins gáfu út nýsköpunarstefnu sína árið 2018 var langt í land. Síðan þá hefur orðið mikil breyting til batnaðar og í dag hafa útflutningverðmæti hugverkaiðnaðar náð 214 milljörðum.
Til að ná árangri er þó ekki nóg að taka ákvörðun um að stunda rannsóknir og þróun til nýrrar tækni, vara og framleiðsluaðferða. Nanna minnir á að það þurfi einnig að styðja við nýsköpunarmenningu innan fyrirtækja. Til þess þurfi stjórnendur að treysta starfsfólki sínu, leyfa mistök og skapa rými fyrir sköpun. Þá þurfi samtalið við viðskiptavininn og samfélagið að vera mjög öflugt.