Heimsókn í Hovdenak Distillery
Hovdenak Distillery varð til árið 2018 en á sér miklu lengri sögu. Brugghúsið er með þeim fullkomnari á landinu.
„Við erum hérna tvö, ég og konan mín Brynja og við göngum hérna í öll störf. Það er ekkert sem við gerum ekki “ segir Hákon Freyr Hovdenak þegar hann er spurður um upphafsár og rekstur Hovdenak Distillery. „Við búum til uppskriftirnar að vörunum okkar. Við hönnum útlit á flöskum og umbúðum. Við búum til allt auglýsingaefni okkar sjálf.“
Hovdenak Distillery var hrint úr vör árið 2018 og fór fyrsta árið í uppbyggingu. Brugghúsið er með þeim fullkomnari á landinu en hönnun, smíði á tækjum og uppsetning á innréttingum var öll í höndum eigenda og unnin með góðra vina hjálp.
Ævintýrið byrjaði samt miklu fyrr, eða 12 árum áður í bílskúr í Hafnarfirði þar sem Hákon eimaði og bruggaði fyrir sjálfan sig. Á þeim tíma verður fyrsta varan til, sem í dag nefnist Stuðlaberg gin og er margverðlaunað.
Framleiðslu- og eimingarferli Hovdenak Distillery er frábrugðið því sem þekkist hjá mörgum brugghúsum þar sem eimingin fer fram í lofttæmi og undir mun lægra hitastigi en almennt gerist. „Þaðan kemur mýktin sem er afgerandi í öllum okkar vörum“ segir Hákon.