Nýsköpun eflist í erfiðleikum

Edda Konráðsdóttir annar stofnanda Iceland Innovation Week segir frá því hvernig var að stofna stóra alþjóðlega hátíð nýsköpunar í miðjum heimsfaraldri.

Edda Konráðsdóttir stýrir Iceland Innovation Week sem var haldin um miðjan maímánuð ásamt Melkorku Sigríði Magnúsdóttur. Fyrsta hátíðin var haldin árið 2020 en var þá haldin alfarið á netinu vegna heimsfaraldursins. Ári seinna var hátíðin með blönduðu sniði og haldin bæði á netinu og að einhverju leyti í raunheimum. Í ár var hátíðin haldin án allra takmarkana og komu hingað til lands yfir tvö hundruð erlendir gestir til að sækja viðburði og kynna sér íslensk sprotafyrirtæki.

Tengslamyndunin dýrmæt

„Loksins tókst okkur að halda hátíðina eins og við vildum alltaf hafa hana. Tengslamyndunin skiptir svo miklu máli og allt það sem gerist þegar þú mætir á staðinn og hittir nýtt fólk. Allt það sem er í rauninni ekki hægt að plana fyrirfram,“ segir Edda. „Við fengum til okkar fulltrúa frá 35 erlendum fjárfestingasjóðum sem voru komnir hingað til að kynna sér íslenska nýsköpun, að fá fólk hingað til landsins skiptir miklu máli.“

Hátíðin varð til af þörf

Edda og Melkorka eru eigendur hátíðarinnar og stýra henni en í teyminu eru einnig Karítas Harðardóttir viðburðastjóri og Guðfinna Birta Valgeirsdóttir markaðsstjóri.

„Við fjórar myndum grunnteymið en svo stækkar það og það koma fjölmargir sjálfboðaliðar og samstarfsaðilar að verkefninu.

Iceland Innovation Week varð til af þörf. Við Melkorka unnum saman hjá Icelandic Startups sem heitir Klak í dag og þar vorum við að aðstoða frumkvöðla við að koma fyrirtækjum sínum á legg. Partur af þeirri vinnu var að sækja með þeim sprotahátíðir erlendis. Öll Norðurlöndin halda svipaðar hátíðir sem skipa veigamikinn þátt í stuðningi við frumkvöðla og nýsköpunarmenningu. Við gátum aldrei boðið fólki til okkar og fannst vanta svipaðan vettvang hér á landi.“

Melkorka & Edda stofnendur Iceland Innovation week

 

Ómetanlegt samstarf við systurhátíðir á Norðurlöndum

Edda nefnir að það hafi reynst góð ákvörðun að halda hátíðina í fyrsta sinn árið 2020 þrátt fyrir heimsfaraldur. Hátíðin hafi fengið að þróast á þessum tíma í miklu lærdómsferli. Þær Melkorka hafi einnig notið þess að vera í góðu samstarfi við stjórnendur erlendra hátíða.

„Við vinnum náið með stjórnendum erlendra hátíða sem við höfum sótt síðustu ár; Á borð við Slush í Helskini, Tech BBQ í Kaupmannahöfn, Oslo Innovation Week og Gothenburg Tech Week í Gautaborg, þetta eru systurhátíðir okkar og samstarfið hefur reynst okkur ómetanlegt.“

Gestir fengu að upplifa íslenska náttúru

Á hátíðinni í ár stóðu Edda og Melkorka að auki fyrir tveimur sjálfstæðum stórum viðburðum; Nordic Startup Awards og loftlagsviðburðinum Ok, bye. Nafnið vísar í OK jökul sem var fyrstur íslenskra jökla til að hverfa vegna loftlagsáhrifa.

„Við tókum yfir verðlaunahátíðina sem hefur hingað til verið haldinn í Danmörku. Við Melkorka höfum svo gengið með þennan stóra loftlagsviðburð í maganum frá upphafi. Bakgrunnur Melkorku úr sviðslistum nýttist afar vel og viðburðurinn var um leið upplifunarleikhús. Fólk gekk inn í íslenska náttúru og veðráttu innanhúss og hlustaði á fuglahljóð.“

Mikilvægt að brjóta síló og efla samstarf

Skilningur samfélagsins á því að nýsköpun þurfi að vera ein af stoðum efnahagskerfis og atvinnulífs er að mati Eddu að dýpka. „Skilningurinn jókst í kóvid, mikilvægi nýsköpunar varð einn af lærdómum faraldursins. Við erum líka að skilja betur hvað nýsköpun er teygjanlegt og vítt hugtak. Það er ekki það sama fyrir einni manneskju og þeirri næstu þótt að skapandi hugsun tengi okkur saman. Nýsköpun á ekki við um einn vettvang eða geira heldur alla, við vinnum til dæmis ekki eingöngu með nýsköpunarráðuneytinu, heldur öllum ráðuneytum. Þá finnst okkur gaman að vinna með fyrirtækjum sem stunda markvissa nýsköpun, því þvert á það sem margir telja er mjög öflug nýsköpun innan margra íslenskra fyrirtækja. Þar er mikil gróska, skapandi lausnahugsun og vöruþróun. Nýsköpun snýst ekki bara um tæknilausnir heldur um fólk og það sem skiptir mestu máli í íslensku atvinnulífi og iðnaði er að brjóta niður síló og efla allt samstarf.“

Sumir segja hætt við því að fyrirtæki leggi minni áherslu á bæði nýsköpun og sjálfbærni þegar erfiðleikar steðja að. Til dæmis verðbólga, kreppa eða heimsfaraldur. Hvað segir þú þá?

„Þá er einmitt allra mikilvægast að setja fókus á nýsköpun. Stærsti uppgangur nýsköpunar er í kjölfar erfiðleika. Við sáum til dæmis ótrúlegt stökk í nýsköpun eftir kreppuna. Við sáum svo mikið af sterkum sprotafyrirttækjum verða til. Þá hafði fólk sem hafði unnið innan bankageirans og misst vinnuna fundið sér nýjan vettvang og nýtt þekkingu sína. Núna sjáum við svipað mynstur og nýsköpun innan heilbrigðisgeirans hefur stóraukist í kjölfar kóvid-19.“

Hafa samband

Hafðu samband

Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband