„Við Íslendingar erum hræddir við áfengi“
Eva María Sigurbjörnsdóttir framleiðslustjóri hjá Eimverk er formaður Samtaka íslenskra eimingarhúsa.
Íslensk eimingarfyrirtæki stofnuðu með sér samtök þótt að ætla mætti að samkeppni á milli þeirra sé mikil á litlum markaði. Eva, formaður samtakanna, er í spjalli í nýjasta þætti Augnabliks í iðnaði. Hún telur styrk liggja í því að litlu eimingarhúsin standi saman. Þau séu í raun og veru að fara skosku leiðina þar sem Skotar líta aldrei á innanlandsmarkað sem samkeppni því markaðurinn fyrir utan landssteinana er alltaf stærri.
„Þar þurfa allir að vera með svipaða gæðastaðla,“ segir Eva. „Því að ef einn stendur sig illa þá getur það eyðilagt fyrir öllum hinum.“
Eva telur samtökin gríðarlega mikilvæg því oftast eru eimingarhúsin lítil fjölskyldufyrirtæki og þá sé gott að geta skotist á milli til að hitta fólk og vinna að sameiginlegum markmiðum. Það er því augljóst að samvinna milli fyrirtækja innan samtakanna er mikil og góð sem hlýtur að teljast mikill fengur.
Eva talar einnig um að hvert eimingarhús hafi sína sérstöðu og þannig skapist breið vörulína sem við getum verið stolt af. Þá bendir Eva á að íslensk áfengisframleiðsla hafi margsinnis unnið til aþjóðlegra verðlauna. Íslenska vatnið sé einstakt til framleiðslu og mikill metnaður sé lagður í hverja afurð.
Eva er fróð um sögu íslenskrar áfengisframleiðslu og neyslu. „Við Íslendingar erum hræddir við áfengi og felum áfengissölu Íslands mjög mikið,“ segir hún. Eva vill leggja áherslu á að í stað þess að setja fókusinn á að fólk eigi ekki að drekka að þá eigi miklu frekar að kenna þeim ábyrga neyslu sem hafa aldur til. „Svona eins Frakka gera,“ segir Eva.
Ólafur Jónsson stýrir þættinum og fara þau Eva um víðan völl enda umræðuefnið óþrjótandi.