Alþjóðlegt samstarf um nýsköpun í málaraiðn
Iðan er aðili að samstarfsverkefni þrettán landa um nýsköpun og góða starfshætti í málaraiðn.
Verkefnið ber heitið Painting Skills Academy þar sem áherslur eru á samstarf um nýsköpun og að deila góðum starfsháttum í málaraiðn. Samstarfsaðilar eru 23 talsins frá 13 löndum. Meðal samstarfsaðila eru UNIEP sem eru alþjóðleg samtök málara, SBG-fræðslusetur sem er með nám upp á meistarastig í málaraiðn í Þýskalandi, OZS- samtök iðnaðar og smærri fyrirtækja í Slóvaníu. Fleiri stærri skólar og samtök taka þátt en þar má nefna EPP frá Belgíu (European Painting Partners), EUROMASC frá Noregi og WIAB frá Austurríki.
Þau Rakel Steinvör Hallgrímsdóttir náms- og starfsráðgjafi, Ólafur Ástgeirsson, leiðtogi bygginga- og mannvirkjagreina og Ásgeir Valur Einarsson verkefnastjóri á bygginga- og mannvirkjasviði eru fulltrúar verkefnisins fyrir hönd Iðunnar.
Þau telja verkefnið mikilvægt fyrir margar sakir. Ein þeirra er að kortleggja mismun á námi og réttindum til að mega starfa sem málari í Evrópu. Önnur að byggja sameiginlegan grundvöll fyrir rafrænum gagnabanka með námsleiðum og námskeiðum í málaraiðn. Þetta myndi umbylta möguleikum til sí-og endurmenntunar málara og vonandi auka flæði vinnuafls milli landa í Evrópu. Þannig gæti málari í Slóveníu sótt námskeið sem kennd eru í Danmörku og þannig náð sér í viðbótar þekkingu og færni.