Frumkvöðlahugsun að breyta rekstri í hönnun

Hjalti Karlsson er grafískur hönnuður sem hefur notið mikillar velgengni á Manhattan þar sem hann rekur hönnunarfyrirtækið Karlssonwilker ásamt vini sínum. Hjalti ræddi við Grím Kolbeinsson í nýjasta þætti Augnabliks í iðnaði um bakgrunn sinn, reksturinn í New York, verkefnavinnu sína fyrir stærstu fjölmiðla heims og sýn sína á þróun prent- og miðlunargreina.

Hjalti Karlsson, hönnuður
Hjalti Karlsson, hönnuður
  • Fjórða iðnbyltingin

Hjalti var rétt rúmlega tvítugur þegar hann fór til náms á Manhattan í New York í Parsons School of Design. Hann var staðráðinn í því að verða hönnuður en fann ekki sína fjöl á Íslandi í námi. Það gerði hann heldur betur í Parsons og þótt hann hafði aldrei ætlað sér að flytjast til New York undu ævintýrin upp á sig. „Ég virkaði miklu yngri en ég var þegar ég flutti út, ég bjó þá enn hjá mömmu og pabba, var rosa feiminn. Maður sér krakka í dag, kannski var maður bara seinþroska? En það var hópur Íslendinga í skólanum sem bjó í sama hverfi og það hjálpaði auðvitað. Hægt og rólega kynnist maður svo nýju fólki,“ segir Hjalti um fyrstu skrefin á erlendri grundu.

Penthouse í næsta bás

Eftir námið fékk Hjalti ársatvinnuleyfi sem hann nýtti vel og fékk framlengingu. Á þessum árum rétt fyrir síðustu aldamót einkenndist bransinn af miklu harki fyrir nýútskrifaðan hönnuð. „Fyrsta vinnan mín var á tímariti, það var gefið út fyrir eldra fólk og hét Langlífi. Útgáfufyrirtækið átti líka tímaritið Penthouse. Ég var þarna í einhverjum bás að gera layout með gömlu fólki en svo var fólkið í næsta bás að vinna í aðeins öðru!” „Þetta var ekki góður tími að fá vinnu. Bransinn kemur alltaf í bylgjum. Það var mjög algengt á meðan þú varst enn í skóla, að þú gast unnið á einhverri stofu en fékkst kannski engin laun, kannski samloku. Það voru margir að misnota þetta og það var kannski einhver aðili að vinna þarna 8-9 tíma um helgar á engum launum. Þetta var allt saman tekið í gegn. Nú fá allir borgað!“

Sækir í Ísland

Fyrirtæki sitt Karlssonwilker rekur Hjalti með vini sínum Jan Wilker sem hann kynntist í verkefnavinnu á þessum annasama tíma að námi loknu. Þeir unnu helst fyrir tónlistarbransann og fengu að auki verkefni frá fyrrverandi vinnuveitanda sínum Stefan Sagmeister sem fór í ársleyfi og treysti þeim fyrir verkefnum. Síðan þá hafa þeir unnið fyrir MTV, New York Times, Time Magazine, Bloomberg og MoMA. Hjalti er ófáanlegur til að gera upp á verkefna sinna og segir þau öll hafa verið gefandi enda fjölbreytt. Hann segist einnig sækja í verkefni á Íslandi því það gefi honum góða ástæðu til þess að koma oftar hingað. „Ég er rosalega tengdur Íslandi. Ég kem að meðaltali fimm, sex sinnum á ári og er alltaf með kúnna hér og flakka því á milli.“ Hægt er að sjá ummerki hönnunar Hjalta víðsvegar. Hjalti og Jan endurhönnuðu til dæmis umbúðirnar utan um íslenska brennivínið og alla markaðsásýnd Listasafns Reykjavíkur, Hafnarhúsið, Ásmundarsafn og Kjarvalsstaði, Loksins barinn í flugstöðinni þekkja margir og þá hafa þeir hannað ýmislegt fyrir GusGus. Nýjasta verkefnið er vel heppnað lítið bakarí í miðbænum, BakaBaka.

Sterkt trend og frumkvöðlahugsun

Hjalti segir þróun í prent- og miðlunargreinum hraða og frumkvöðlastarfsemi sé áberandi. „Þegar ég var í skólanum þá var þetta allt saman rosalega aðskilið. Það var sér ljósmyndadeild og mér fannst það skrýtið og engin tengsl á milli deilda. Í dag er þetta svo vítt hvað fólk er að gera. Ég sé trend og það er að stofurnar hafa eigin verkefni. Eru kannski sjálfir að hanna vöru og reyna að selja hana. Mörg hönnunarstúdíó í dag bera einkenni frumkvöðlastarfsemi og þá eru um 20% af tekjunum af þeirra eigin verkum en ekki frá kúnnum. Þau eru sjálf kúnninn. Í nokkrum tilfellum hefur þetta gengið svo vel að það hefur tekið yfir stofuna.,“ segir Hjalti sem finnst þróunin augljóslega spennandi.

Hér er hlekkur á heimasíðu hönnunarstofunnar Karlssonwilker.

Hafa samband

Hafðu samband

Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband