Um sveinspróf
Svanur Karl Grjetarsson húsasmíðameistari og framkvæmdastjóri MótX er hér í fróðlegu spjalli við Ólaf Ástgeirsson, sviðsstjóra bygginga- og mannvirkjasviðs IÐUNNAR um sveinspróf.
Sveinspróf í byggingargreinum eru haldin tvisvar á ári, fyrstu vikuna í janúar og júní. Um 150 til 200 nemendur þreyta prófið ár hvert og miðað við aðsókn að húsasmíði í framhaldsskólum stefnir í aukningu.
Prófin eru bæði bókleg og verkleg. Heildarpróftími er 22 tímar, 20 tímar í verklega hlutanum og 2 í þeim bóklega. Undanfarin ár hefur flóra verkefna verið fjölbreytt, einskonar sýnishorn af þakvirki, tröppum, stigum eða gluggum. „Auðvitað væri best ef þetta gætu verið raunveruleg verkefni" segir Svanur „en ekki á svona litlum skala“, en fjöldi próftaka takmarkar það.
Nemendur eru mistilbúnir að koma í sveinspróf að mati Svans enda er mikill þrýstingur á próftakann. Prófið er lykill að verðmætum starfsréttindum og það eru „fáir sem eiga sinn besta dag í prófinu“ segir Svanur. Það er því mikilvægt að nálgast prófið mjög skipulega og tímastjórnun er mjög mikilvæg.
Allt þetta og miklu meira um sveinspróf í þessu fróðlega spjalli. Hér eru svo fleiri áhugaverðir þættir sem tengjast bygginga- og mannvirkjagreinum.