Persónuvernd með Dóru Sif Tynes
Dóra Sif Tynes lögmaður er sérfræðingur í persónuvernd. Við litum í heimsókn til hennar í lögmannsstofuna Advel lögmaður til að fræðast betur um persónuvernd í stafrænum heimi.
Þann 15. júlí 2018 tóku gildi á Íslandi ný lög um persónuvernd og vinnslu persónuuplýsinga. Lögin byggja á reglugerð frá ESB sem jók til muna kröfur um vernd persónuupplýsinga. Lögin lögðu einnig auknar skyldur á herðar fyrirtækja hvað varðar meðferð og vinnslu slíkra upplýsinga og lék okkur hugur á að vita hvernig innleiðingin hefur gengið síðust ár. Hefur t.a.m. komið til dómsmála vegna þessa?
Það leikur enginn vafi á því að gríðarlegir möguleikar liggja í því að safna upplýsingum um neytendur og nota þær í viðskiptalegum tilgangi og slík söfnun er algeng. En hvað þýðir það fyrir einstaklinginn? „Ef einhver tekur saman mitt rafræna fótspor, hversu víða dreifist það, hvar eru upplýsingarnar geymdar? Þá skilur maður meira mikilvægi þess að það verði að setja reglur sem allir verða að fara eftir því annars erum við ekki að tryggja réttindi einstaklingsins í þessum stafræna heimi“ segir Dóra Sif Tynes.
Lykilatriðið er vönduð upplýsingagjöf og fræðsla. Það verður að upplýsa einstaklinga um það hverju verið er að safna, í hvaða tilgangi og hvernig eru þær upplýsingar geymdar. „Allir sem vinna með persónuupplýsingar verða að fylgja lögunum, það er enginn afsláttur gefinn af því hvort sem um er að ræða lítil eða stór fyrirtæki.“ segir Dóra.
Þetta og margt fleira í þessu fróðlega spjalli um málefni sem snertir okkur öll.