Sjálfbærni er sjálfsögð og almenn krafa viðskiptavina í dag

„Við erum ekki komin að lokalaginu á þessu balli,“segir Birgir Jónsson forstjóri Play um íslenskan prentiðnað. Birgir gerir upp bakgrunn sinn í prentinu í nýjasta þætti Augnabliks í iðnaði en um tíma stýrði hann einni stærstu prentsmiðju í Evrópu. Birgir segir mikilvægt að íslenskur prentiðnaður skilji betur þarfir viðskiptavina sinna í umhverfismálum.

Birgir Jónsson og Grímur Kolbeinsson hlaðvarpsstjórnandi
Birgir Jónsson og Grímur Kolbeinsson hlaðvarpsstjórnandi

Birgir Jónsson forstjóri Play hefur víðtæka reynslu af alþjóðlegri stjórnun og rekstri. Hann var svæðisstjóri Össurar í Asíu með aðsetur í Hong Kong, forstjóri Iceland Express og síðar aðstoðarforstjóri WOW air. Hann bjó og starfaði í Rúmeníu, Búlgaríu og Ungverjalandi, þar sem hann var forstjóri Infopress Group, eins stærsta prentfyrirtækis í Austur-Evrópu. Hann var forstjóri Íslandspósts og hefur einnig tekið þátt í mörgum verkefnum á sviði endurskipulagningar og umbreytinga í fjölbreyttum atvinnugreinum. Birgir tók margar erfiðar ákvarðanir sem forstjóri Íslandspósts og ein af þeim reyndist erfið íslenskum prentiðnaði.

„Við hættum að dreifa markpósti, bæði vegna þess að það eru aðrir aðilar sem geta gert það og svo er gríðarleg krafa og óánægja hjá neytendum, hjá viðskiptavinum póstsins yfir þessu svokallað ruslpóstsflæði. Mér finnst áhugavert að fylgjast með prentiðnaðinum og umhverfismálin eru svolítið mislesin. Það er alltaf svar prentiðnaðarins við gagnrýni að pappírinn sé sjálfbær og það séu svona og svona mörg tré gróðursett. En það eru bara svo mörg önnur handtök og spor við dreifingu og förgun á pósti sem fólk vill ekki.

Heildarumhverfisáhrifin eru stærri en bara pappírinn. Við gerum í dag kröfu um að allar vörur séu sjálfbærar, það er hætt að vera sölupunktur,“ segir Birgir og ítrekar að íslenskur prentiðnaður þurfi að finna betri lausnir og ný hlutverk. Framþróun og nýsköpun innan iðnaðarins sé nauðsynleg. „Ég er nú að verða fimmtugur en byrjaði í prenti þegar ég var fimmtán ára og frá þeim tíma hefur stanslaust verið spáð endalokum prentsins. En það hefur ekki enn orðið,“ segir hann til hvatningar.

„Prentiðnaðurinn þarf að finna sér ný hlutverk. Það er nóg af mannauði og metnaði í þessum bransa, við erum ekki komin að lokalaginu á þessu balli.“

Hafa samband

Hafðu samband

Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband