Gastækni og gaslagnir
Starfsumhverfi suðumanna þarf að vera þannig útbúið að það skaði ekki heilsu né valdi óþarfa slysum.
Þráinn Sigurðsson framkvæmdastjóri Gastec sérhæfir sig í flestu því sem tengist gasbúnaði, gaslögnum og gasöryggi.
Gústaf Adólf Hjaltason, sérfræðingur í málmsuðu, ræddi við Þráinn í nýjasta þætti Augnabliks í iðnaði um starfsumhverfi suðumanna og framþróun í iðnaðinum.
Þráinn telur mikilvægt að notuð séu svokölluð mison-gös í smiðjum sem séu heilnæmari. Það sé aðeins dýrara en skili sér í minni þreytu og þannig meiri afköstum er líða tekur á daginn. Starfsmenn hafi meiri starfsorku allan daginn og gaskostnaður sé frekar lítill í smiðjum þannig að stjórnendur ættu, að hans mati, frekar að velja þann kost. „Gaskostnaður í heildarkostnaði suðu er hvort sem er lítill, kannski tvö til þrjú prósent.“
Útsog er annar þáttur sem þarf að vera í góðu lagi, en einnig eru til hjálmar sem eru með yfirþrýsting inni í hjálminum þannig að suðumaðurinn fær hreinsað loft þjappað inn í hjálminn. Þetta er alger bylting að mati Þráins og stórbætir starfsumhverfi suðumanna. „Þetta er í eðli sínu tiltölulega ódýr leið til að bæta starfsumhverfi suðumanns, það er að vera með þessa hjálma,“ segir Þráinn og segir að notkunin á slíkum hjálmum mætti vera meiri og Gústaf tekur undir það. Þráinn segir að best sé að haga útsogi þannig að það sogist niður úr suðuborinu sjálfu eða sé í stillanlegum rana. Hann er ekki eins hrifinn af því að setja útsog fyrir ofan suðumanninn eins og sést á sumum stöðum. Hlífðarbúnaður er einnig mjög mikilvægur til að koma í veg fyrir slys og til að vernda suðumanninn.
Þráinn telur töluvert rými vera fyrir meiri sjálfvirknivæðingu í málmiðnaði en nú er til staðar. Það myndi skapa ný tækifæri til að framleiða fleiri vörur hér á landi í stað þess að þurfa að leita til aðila erlendis. „Í þessum framleiðslugeirum myndi maður vilja sjá meiri róbótavæðingu en það eru ekki mörg fyrirtæki hér á landi sem eru komin á þann stall,“ segir Þráinn.
Gústaf og Þráinn ræða svo um framtíðina og möguleika á enn frekari tækniþróun í suðuhjálmum til að auðvelda vinnu suðumanna. Í þeim efnum séu möguleikarnir óendanlegir og spennandi.