Endurvinnsla bifreiða á umhverfisvænan hátt

„Þú verður alltaf að hugsa um þetta sem verðmæti en ekki eitthvað ónýtt drasl,“ segir Aðalheiður Jacobsen framkvæmdastjóri Netparta

Fyrirtækið Netpartar sérhæfir sig í endurvinnslu bifreiða með umhverfisvænum hætti og endurnýtingu bílaparta.

„Þetta byrjað allt árið 2009,“ segir Aðalheiður. „Hugmyndin spratt upp úr kreppunni þegar erfitt var að kaupa inn varahluti því krónan var svo veik. Við fórum því í samvinnu við Sjóvá með endurnýtingu á bílapörtum og notuðum varahlutum þannig að tryggt væri að bæði rekjanleiki og gæði væru sýnileg. Þannig var einnig tryggt að ef varahluturinn var gallaður eða passaði ekki þá væri hægt að fá annan eða endurgreitt.“

Rekjanleiki varahlutanna byggir á ýmsum þáttum eins og þjónustubók, viðhaldi og tjónasögu bílsins. Þannig á verkstæði að fá góða mynd af ástandi varahlutarins og getur þá lagt mat á notagildi hans.

Aðalheiður segir að þó fólk sé almennt meira meðvitað um endurnýtingu í dag þurfi bíliðnaðurinn að undirgangast breytingu á hugsunarhætti og þar komi verkstæðin og tryggingafélögin sterk inn. Þau gætu átt þátt í að breyta verklaginu og nýta betur það sem til er. Aðalheiður nefnir að samkvæmt erlendum könnunum gætu tryggingafélög mögulega lækkað viðgerðakostnað um allt að 20%.

Netpartar endurvinna ökutæki á umhverfisvænan hátt og eru vottuð til þess.

„Að mörgu er að hyggja þegar bíll kemur til Netparta til endurvinnslu og niðurrifs. Tryggja þarf að réttar aðferðir séu notaðar og rétt flokkun. Lykillinn að velgengni liggur í því að líta á ónýtan bíl sem verðmæti. Starfsfólkið okkar gegnir þar mikilvægu hlutverki og það ber virðingu fyrir hlutunum í stað þess að líta á það sem ónýtt drasl,“ segir Aðalheiður. 

Þetta og margt fleira fræðandi í þessu skemmtilega spjalli þeirra Sigurðar S. Indriðasonar, sviðstjóra bílgreinasviðs IÐUNNAR. 

Hafa samband

Hafðu samband

Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband