Tækifæri í krísum og breytingum í prentiðnaði

Guðmundur Ragnar Guðmundsson framkvæmdastjóri og annar eigandi prentsmiðjunnar Prentmets Odda mætti í hlaðvarpið Augnablik í iðnaði og ræddi um tækifæri í umhverfisvænum íslenskum prentiðnaði, mikilvægi þess að þjónusta landsbyggðina, pappírsskort á heimsvísu og framtíð bókaprentunar hér á landi.

Guðmundur Ragnar Guðmundsson
Guðmundur Ragnar Guðmundsson

Guðmundur Ragnar Guðmundsson á og rekur prentsmiðjuna Prentmet Odda ásamt eiginkonu sinni Ingibjörgu Steinunni Ingjaldsdóttur. Þau hjónin hafa byggt upp fyrirtækið sem býður upp á fjölbreytta prentun og reka útibú á Selfossi og á Akureyri. Guðmundur segir mikil tækifæri liggja í umbúðaprentun og segir neytendur meðvitaða um umbúðir. Það hafi orðið vakning á meðal neytenda hvað varðar notkun og neyslu á pappír til prentunar. Markaðurinn hefur tekið rækilega við sér vegna loftlagsáhrifa og kröfu um sjálfbærni. „Við sjáum til dæmis verulega aukningu í umbúðaprentun og finnum fyrir kröfu markaðarins,“ segir Guðmundur og nefnir að innan matvælaiðnaðarins sjái menn sölu margfaldast þegar umbúðir eru færðar úr plasti í pappír.

Vaxandi skógar og prentun pappírs haldast í hendur

„Þetta er þróun sem er mjög skemmtileg. Umhverfismeðvitund hjá fólki er að koma sterkari inn og við viljum halda umræðunni á lofti. Það er sárt að hlýða á málflutning fólks sem telur sig hafa hlutina á hreinu og vilja minni neyslu á pappír,“ segir Guðmundur og tekur fram að slíkur málflutningur sé þvert á staðreyndir. „Nytjaskógarnir hafa vaxið gríðarlega síðustu ár. Á hverjum einasta degi vaxa nytjaskógar Evrópu um 1500 fótboltavelli og það er að stórum hluta vegna prentiðnaðar. Að auki eru nánast allar prentsmiðjur landsins Svansvottaðar,“ segir hann og segir að sem betur fer sé viðskiptavinurinn meðvitaður. „Við finnum þetta mjög sterkt hjá viðskiptavinum okkar og sjáum þess vegna fram á mikinn vöxt í umbúðum á næstu árum.“

Ástríða að halda áfram að prenta bækur

Guðmundur telur að bókaprentun muni ekki snúa aftur til Íslands í því formi sem hún var en segir tækifærin liggja í endurútgáfu í smærra upplagi.

„Þeir sem þekkja söguna vita að Oddi seldi bókalínuna árið 2016. Þá lá fyrir að bókaútgefendur ætluðu út með sín viðskipti. Á sama tíma fjárfestum við í bókaprentun. Okkur fannst raunhæfur kostur að geta tekið endurprentun á Íslandi. Þetta var af ástríðu sem við vildum styrkja bókahlutann. Okkur finnst gaman að vinna bækur. Þetta er ekki stór hluti af okkar veltu, kannski 10%. Ef ég horfi ískált á málin þá held ég að við munum helst sinna stærri upplögum í endurprentun bóka,“ segir Guðmundur en tekur fram að Prentmet-Oddi sinni bókaprentun í síauknum mæli fyrir einstaklinga, stofnanir og félagasamtök. Annars tókum við 6000 harðspjalda bækur á dögunum á sex dögum,“ segir hann.

Hafa tekið yfir rekstur sautján fyrirtækja

Það hafa orðið miklar sameiningar í prentiðnaði síðustu ár. Guðmundur og Ingibjörg hafa nú þegar þetta er skrifað tekið yfir sautján fyrirtæki og sett undir rekstur Prentmets Odda.

Spurður um þróunina segir hann að líklegast sé enn frekari hagræðing fram undan.

„Því miður hefur kakan verið að minnka og breytast en við höfum viljað horfa á tækifærin í þessum breytingum. Það munu eiga sér fleiri sameiningar á næstu mánuðum og árum.

“ Við sjáum ýmis tækifæri í því til dæmis að útvíkka starfsemina. Flestir eru meðvitaður um að það er gríðarleg tækniþróun í stafræna hlutanum,“ segir Guðmundur en minnir á að fólk megi ekki ofmeta þá þróun. „Þetta styður hvort annað, stafræn prentun og offsetprentun. Ég sé miklar breytingar fram undan. Upplög í stafrænni prentun eru sífellt að aukast og formöt að stækka. Verkefnin eru fleiri og fjölbreyttari. Það gefst mikill kostur á sérhæfingu, breytingum á prentverki og fleiru. Það verður líklega hægt að framleiða hér á landi ýmislegt sem ekki hefur verið hægt áður,“ segir hann.

Skortur á pappír og hækkanir

Guðmundur hefur verið forsjáll í því að birgja sig upp af pappír á meðan verð á pappír heldur áfram að hækka vegna samdráttar. Hann segist að sjálfsögðu hafa áhyggjur af þeim samdrætti. „Við höfum reynt að birgja okkur upp og það hefur gengið vel. Þetta er tímabundið ástand sem vonandi gengur yfir á næstu mánuðum. Pappír sem við fengum áður afhentan á sex til sjö vikum fáum við nú eftir fimm til sex mánuði. Svo eru að hrynja inn töluverðar hækkanir. Við erum kannski ekki í sama pakka og dagblaðaprentun sem er að horfa upp á hækkun um 40-50%, en þó eitthvað um 10%.“

Miklir hagsmunir fyrir atvinnulífið að prentiðnaður blómstri

Og framtíðarsýnin er björt þrátt fyrir samdrátt í iðnaði og heimsfaraldur.

„Ef að við horfum á íslenska prentmarkaðinn þá hefur hann minnkað töluvert: En það er bjart fyrir á Lynghálsinum Við sjáum tækifæri og viljum snúa vörn í sókn,“ segir hann og minnir á að það séu miklir hagsmunir fyrir atvinnulífið að hér á landi þrífist fjölbreyttur prentiðnaður sem geti þjónað rekstri. „Vonandi verða hér fleiri fyrirtæki en tvö eða þrjú sem geta boðið upp á alhliða prentþjónustu. Það er mikilvægt að þessi þjónusta sé til staðar og að þekkingin sé líka til staðar og einnig að það sé hægt að viðhalda þessari þekkingu.“

 

Hafa samband

Hafðu samband

Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband