Konur í iðnaði

Konur fá öðruvísi spurningar í hefðbundnu vinnuumhverfi karla og það getur tekið á að koma inn í vinnuumhverfi sem er ríkt af karllægum viðmiðum og gildum.

  Margrét Halldóra Arnarsdóttir er formaður Félags fagkvenna en það er félag kvenna í karllægum iðngreinum. Sjálf er hún rafvirki og þekkir vel þær áskoranir sem fylgja því að starfa í iðngrein þar sem kynjahlutfall er ójafnt.

  Eftir stúdentspróf lá leið Margrétar í háskóla en hún fann fljótt að uppbygging námsins hentaði henni ekki. Hún fór því að velta fyrir sér öðrum möguleikum og sendi inn umsóknir í bifvélavirkjun og rafvirkjun. Þeir hjá rafmagninu svöruðu á undan segir hún og ég ákvað bara að kýla á það og búin að vera í því síðan. Margrét fór í dag- og kvöldskóla í Tækniskólanum og kláraði námið á tveimur árum. Það er raunverulegur möguleiki segir hún og alveg frábær leið til þess að ljúka sveinsprófi á sem stystum tíma.

  Margrét segir starfsumhverfið gott, mörg mjög fagleg fyrirtæki. Ég hef mætt bæði mjög jákvæðu viðhorfi en einnig fengið spurningar um hvort að pabbi minn eigi fyrirtækið og hvort ég sé örugglega með sveinspróf. Þetta tekur tíma segir hún, margir iðnaðarmenn eru ekki vanir að sjá konur sinna þeirra störfum og finnst það skrítið.

  Þess vegna er félag Fagkvenna einmitt svo mikilvægur vettvangur til þess að ræða saman, veita stuðning og vinna sameiginlega að því að efla ímynd fagkvenna. Skilaboð hennar til iðnaðarsamfélagsins er að ef menn verða varir við eitthvað ósæmilegt eða eitthvað sem betur má fara, að taka upp hanskann fyrir stelpuna í hópnum. Hún vill ekki vera með vesen og segir jafnvel ekki neitt en það þýðir ekki að hegðunin sé í lagi segir hún.

  Margrét tók við sem formaður Félags íslenskra rafvirkja í miðju Covid og finnst það mjög spennandi verkefni. Ég er stolt af því að vera fyrsta konan sem gegnir því starfi segir hún. Samhliða formennskunni sinnir hún verklegri kennslu í rafvirkjun og finnst það skemmtileg tenging að vinna að hagsmunum rafvirkja og taka þátt í að kenna væntanlegum félagsmönnum. 

   

  Hafa samband

  Hafðu samband

  Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband