Við þurfum raddir allra til að tryggja framtíð íslenskunnar
Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Almannaróms ræðir um íslenska tungu og átakið Reddum málinu í nýjasta þætti Kaffispjallsins.
Almannarómur er sjálfseignarstofnun stofnuð 2014 af 25 fyrirtækjum og stofnunum í því skyni að íslenskan verði áfram til í stafrænum heimi. Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Almannaróms hefur fylgt verkefninu eftir frá stofnun. Nýlega lauk árlegu átaki í að safna röddum Íslendinga, Reddum málinu sem er mikilvægt í þeirri vegferð að tryggja framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi. 333 fyrirtæki tóku þátt í ár og fjöldi Íslendinga lagði til raddir sínar sem gögn sem nýtast til tallausna.
„Fólk hefur náttúrulega tilhneigingu til að nota ensku eða önnur tungumál því það hefur enga valkosti ef við eigum ekki þessar tallausnir á íslensku. Þetta er sú leið sem við höfum til að tryggja framtíð tungumálsins okkar,“ segir Jóhanna Vigdís um megintilgang átaksins. „Það er hlutverk Almannaróms og svo var Almannarómur gerður miðstöð máltækni árið 2018 og þá samkvæmt þjónustusamningi við Menntamálaráðuneytið. Við erum með sjóð sem við berum ábyrgð á að fjárfesta fyrir í rannsóknir og þróun í máltækni og búa til þessa innviði sem er grunnur fyrir frekari nýsköpun á þessu sviði,“ segir hún.
Vantar fleiri karlaraddir
Hvers vegna eru ekki bara fengnir atvinnumenn í lestri?
„Tækin þurfa skilja fleiri en atvinnumenn. Þau þurfa að skilja okkur öll. Þess vegna settum við þessa síðu upp árið 2018 í því skyni að safna röddum. Að lýðvirkja það að safna röddum. Máltækni gengur svo mikið út á gögn, eiga sem mest af gögnum. Eins og gervigreind almennt. Við þurfum raddir allra, allra kynja, aldurs. Börn og unglingar eru til dæmis með annað tíðnisvið en fullorðnir.“
Jóhanna segir konur töluvert duglegri við að ljá verkefninu liðsinni sitt og lesa inn gögn.
„Okkur vantar fleiri karlaraddir. Þessi keppni sýnir okkur að konur eru áfram duglegastar að lesa inn, þær eru 70% þeirra sem hafa lesið inn,“ segir hún og nefnir að átakið hafi gengið afar vel í ár. Við erum búnar að fá 250 þúsund nýjar setningar inn í grunninn á þessari viku. Þetta eru 333 fyrirtæki sem hafa tekið þátt og fjöldi fólks sem hefur lagt sig fram við að lesa.“