Stafræn umbreyting í bílgreinum og framleiðslu

Mikilvægt er að endurmennta fólk svo það geti tekist á við breyttar áherslur í sínum störfum segja kennarar og verkfræðingar frá GTC í Gautaborg, en þau vinna náið með Volvo í Svíþjóð.

Gestir frá GTC Tækniskólanum í Gautaborg
Gestir frá GTC Tækniskólanum í Gautaborg

Þau Roger, Martin og Emina sem eru kennarar og verkfræðingar frá Göteborgs Tekniska College, GTC, voru í námsferð hjá IÐUNNI fræðslusetri fyrir nokkrum vikum. Hópurinn heimsótti Borgarholtsskóla, Brimborg, Velti og Artic Trucks og fengu kynningu á starfsemi og nýjungum. Stafræn umbreyting virðist vera stóra áskorunin og hefur áhrif á bíliðnaðinn bæði hvað varðar framleiðslu, viðgerðir og þjónustuþætti.

Sigurður sviðsstjóri bílgreinasviðs IÐUNNAR settist niður með þeim og spjallaði meðal annars um gæðamál í framleiðslu, fjórðu iðnbyltinguna og helstu áskoranir og tækifæri sem tengjast þeirri hröðu þróun sem nú er að eiga sér stað innan bílaiðnaðarins og berst talið t.d. að “Smart Maintenence” sem er mjög áhugavert málefni.

Emina fór stuttlega yfir það hvað þarf að vera til staðar til að stuðla að góðri framleiðslu og þá sérstaklega hversu mikilvæg gæðamál eru hjá framleiðslufyrirtækjum og mikilvægi virks gæðaeftirlits en slíkt getur átt stóran þátt í því að fyrirtæki haldi velli þegar um mikla samkeppni er að ræða. Eins var komið aðeins inn á það hvernig smærri fyrirtæki og verkstæði geti innleitt og notað ferla og aðferðir stærri fyrirtækja eins og t.d. LEAN til að stuðla að betri þjónustu og arðbærari rekstri. T.d. má horfa á viðgerð tjónabifreiðar sem framleiðslulínu þar sem viðkomandi þættir þurfa að eiga sér stað, tjónaskoðun, rif, viðgerð, málun, samsetning og svo loks lokafrágangur.

Roger og Martin ræða svo ýmsar hliðar fjórðu iðnbyltingarinnar og hvernig fyrirtæki geta haldið í við þá tækniþróun sem er að eiga sér stað innan bílaframleiðslunnar. Mikilvægt er að endurmennta fólk svo það geti tekist á við breyttar áherslur í sínum störfum t.d. getur einstaklingur sem vann við suðu þurft að læra að forrita og stýra robot sem sér núna um hina eiginlegu suðu. Passa þarf líka að ætla sér ekki um of í byrjun því ekki eru öll fyrirtæki með rétta grunninn og þekkinguna og því ekki tilbúin að demba sér í fjórðu iðnbyltinguna. GTC hefur verið að veita ráð til fyrirtækja um hvernig best er að takast á við þessar nýju áskoranir og hafa t.d. komið á fót vefsíðunni edig.nu þar sem hægt er að kynna sér ýmislegt í tengslum við stafræna umbreytingu í framleiðslu.

 

Hafa samband

Hafðu samband

Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband