Merkilegar heimildir um ritstörf kvenna

Anna Jónsdóttir er í kaffispjalli um Konubókastofu á Eyrarbakka.

Á Eyrarbakka er rekin Konubókastofa sem heldur til haga prentuðum ritverkum sem íslenskar konur hafa skrifað. Rannveig Anna Jónsdóttir, kölluð Anna, stofnandi safnsins ræðir um mikilvægi þess að varðveita prentaðar heimildir í kaffispjalli við IÐUNA fræðslusetur.

„Ég held að prentútgáfa verði áfram blómleg,“ segir Anna og hefur enga trú á því að rafrænar heimildir taki alfarið við af prentuðum. Varðveislugildi prentaðra bóka sé meira og líklegra sé að meira verði lagt í gæði og útlit prentgripa í framtíðinni.

Á bókasafninu er afar fjölbreyttur bókakostur, elsta bókin er frá árinu 1876, ljóðabókin Stúlka eftir Júlíönu Jónsdóttur sem var vinnukona í Akureyjum í Breiðafirði og hafa hana út á eigin kostnað. Bókin var prentuð á Akureyri.

Þá gefur að líta dýrmætar bækur sem eru jafnframt afar áhugaverðir prentgripir þegar kemur að bókbandi, efnisnotkun og hönnun. Bækur myndskreyttar af Nínu Tryggvadóttur og tímarit gefin út af konum þar sem umfjöllunarefnið er ýmis konar iðnaður, listir og hversdagslífið. „Ætli óvenjulegasta bókin sé ekki skrifuð með ósjálfráðri skrift,“ segir Anna en segist sjaldan vilja svara því hvort hún eigi sér einhverja eftirlætisbók á safninu.

Hugmyndin að Konubókastofu kviknaði í bókmenntafræði hjá Helgu Kress sem sýndi Önnu og öðrum nemendum hversu mikið af bókmenntum íslenskra kvenna væru glataðar. Anna rakst síðar á kvennasafn breskra kvenna á ferðalagi, Chawton House Library og varð þá staðráðin í að stofna íslenskt safn og hóf strax að safna bókum. „Ég hef ekki keypt eina einustu bók hérna inni,“segir Anna sem fær reglulega sendar bækur til sín á Eyrarbakka. Ég er orðin sérvitur núna, ég er farin að biðja fólk um að fara á heimasíðuna núna og sjá hvað er til,“ segir hún og segir safnið þýðingarmikið. „Það skiptir miklu máli að sýna ungum konum söguna og hvað íslenskar konur hafa í raun skrifað mikið.“

Hafa samband

Hafðu samband

Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband