Sterkara samstarf skóla og atvinnulífs
Með nýrri reglugerð eykst þjónusta við starfsnámsnema og samstarf atvinnulífs og framhaldsskóla verður nánara. Markmiðið er að að auðvelda nemendum að ljúka starfsþjálfun sinni og auka skilvirkni vinnustaðanáms.
Mennta- og menningarmálaráðuneyti, IÐAN fræðslusetur og Rafmennt fyrir hönd atvinnulífsins hafa gert með sér samstarfsyfirlýsingu um að fjölga starfsnámsnemum og styrkja samstarf framhaldsskóla og atvinnulífs til eflingar vinnustaðanáms. Skrifað var undir samstarfsyfirlýsinguna í dag við hátíðlega athöfn í vélsmiðjunni Héðni.
Með nýrri reglugerð um vinnustaðanám nr. 180/2021 sem tekur gildi 1. ágúst 2021 er framhaldsskólum gert að hafa umsjón með nemum í vinnustaðanámi í samræmi við lög um framhaldsskóla nr. 92/2008. Þessar breytingar fela í sér aukna þjónustu við starfsnámsnema, faglegri umgjörð vinnustaðanáms og nánara samstarf atvinnulífs og framhaldsskóla. Þær eru auk þess til þess fallnar að auðvelda nemendum að ljúka starfsþjálfun sinni óháð stöðu í atvinnulífinu og auka skilvirkni vinnustaðanáms þar sem tímalengd þess miðast framvegis við hæfni nemenda skv. 7. gr. reglugerðarinnar, í stað fjölda vikna á vinnustað áður.
Með samstarfsyfirlýsingu þessari lýsa félögin f.h. atvinnulífsins sig reiðubúin til að:
- Aðstoða framhaldsskóla við að finna pláss á vinnustöðum til að koma nemum á iðnmeistara-, fyrirtækis- eða stofnanasamning, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar.
- Aðstoða framhaldsskóla við að finna pláss á vinnustöðum fyrir nemendur á skólaleið, sbr. 6. gr. reglugerðarinnar.
- Hvetja fyrirtæki til að bjóða nemum í vinnustaðanám og stuðla að því að ávallt séu til staðar hæf fyrirtæki sem geta tekið nema.
- Sinna eftirliti með fyrirtækjum, veita umsögn um að þau uppfylli sett skilyrði um hæfni og koma upplýsingum þess efnis til Menntamálastofnunar þannig að skrá stofnunarinnar yfir fyrirtæki sem geta tekið nema verði ávallt sem réttust.
- Aðstoða framhaldsskóla við að skipuleggja vinnustaðanám hjá fleiri en einum vinnustað í samræmi við 4. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar ef þess þarf vegna nýrra hæfniviðmiða.
- Aðstoða vinnustaði við að skipuleggja vinnustaðanám í samstarfi við framhaldsskóla í þeim tilgangi að fullnýta getu fyrirtækja til að taka fleiri nema á samning þar sem verkefni og vinnuálag hjá fyrirtækjum dreifist með mismunandi hætti yfir árið.
- Aðstoða framhaldsskólana í starfsgreinum þar sem vinnustaðapláss skal vera til reiðu við upphaf náms. Atvinnulífið vill aðstoða þá sem áhuga hafa á slíku námi en hefur ekki tekist að komast í vinnustaðanám við að nálgast fyrirtæki sem heimilt er að taka nemendur á samning.
- Aðstoða vinnustaði við innleiðingu á rafrænum ferilbókum í samstarfi við Menntamálastofnun og framhaldsskólana.
Vinna hefst nú þegar við undirbúning samstarfsins.
Á myndinni má sjá Pál Magnússon, ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Jóhönnu Klöru Stefánsdóttur stjórnarformann IÐUNNAR og Margréti Halldóru Arnarsdóttur stjórnarformann Rafmenntar, sem undirrituðu samninginn. Auk þeirra eru á myndinni Þór Pálsson, framkvæmdastjóri Rafmenntar og Hildur Elín Vignir, framkvæmdastjóri IÐUNNAR.