Fab-Lab smiðjurnar fá stóraukinn stuðning

Liður í að mæta áskorunum fjórðu iðnbyltingarinnar

Þóra Óskarsdóttir
Þóra Óskarsdóttir
  • Fjórða iðnbyltingin

Þetta er dásamlegt, að það sé verið að búa til umgjörð um Fab-Lab smiðjur á Íslandi. Að þær fái loksins tryggan grundvöll til vaxtar og þroskast betur inn í samfélagið,“ sagði Þóra Óskarsdóttir forstöðumaður Fab-Lab í Reykjavík.
Framlag stjórnvalda til Fab-lab  smiðjanna á landinu verður stóraukið með nýju samkomulagi sem var undirritað í húsakynnum smiðjunnar í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti í gærmorgun. Framlag ráðneytanna verður samtals 84 milljónir á árinu 2021.

Þóra segir starf Fab-Lab smiðjanna hafa verið mikið grasrótarstarf.  „Það er reyndar galdurinn í þessu, að þetta er grasrótarstarf. En til að tryggja vöxt og framhaldslíf í menntakerfinu, í atvinnulífinu og hjá frumkvöðlum þá var þessi stuðningur stjórnvalda nauðsynlegur. Við erum komin á þann stað að við erum orðin tryggur hluti af nýsköpun, menntun og atvinnulífi.“ 

Smiðjan opin öllum

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og Dagur Eggertsson borgarstjóri undirrituðu samkomulagið í morgun við hátíðlega athöfn.

Alls eru stafræktar átta Fab-Lab smiðjur á landinu. Þótt Fab-Lab smiðjurnar séu flestar starfræktar í skólum eru þær opnar almenningu og eru mikilvægur liður í að efla nýsköpunarhugsun bæði í skóla og atvinnulífi. Starfsemi þeirra miðar að því að þjónusta nemendur, frumkvöðla, fyrirtæki og almenning við að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. 

Fab-Lab smiðjurnar einnig tengjast öflugu neti sérfræðinga í 100 löndum og byggja því alltaf á nýrri tækni og námi í gerjun. Þær gegna einnig afar mikilvægu hlutverki í því að styðja við virka þátttöku og áhuga á verk- og tækninámi í grunn- og framhaldsskólum og bæta tæknilæsi.

„Hér erum við að innleiða nýjustu tækni til fólks. Þannig að fólk geti nýtt sér hana til hagsbóta og til að skapa. Ekki bara til afþreyingar heldur til að komast lengra,“ sagði Þóra.

Áskorunum fjórðu iðnbyltingarinnar mætt

Þórdís Kolbrún minnti sérstaklega á mikilvægi nýsköpunar sem undanfara allra framfara. „Þetta er formúla sem virkar,“ sagði ráðherra sérstaklega um Fab-Lab smiðjurnar og sagði þær vera dýrmætan vettvang fyrir nýsköpun og þjálfun fyrir störf framtíðarinnar og þær áskoranir sem eru framundan.

Lilja minnti á lykilhæfni sem felst í skapandi hugsun og sem samkeppnishæfni til framtíðar byggði á og nýja menntastefnu sem krefst góðrar aðstöðu til stafrænnar hæfni.  „Við erum á fleygiferð inn í nýja og spennandi tíma, “sagði ráðherra en  undirritun samkomulagsins í dag er liður í aðgerðaáætlun stjórnvalda til að mæta áskorunum fjórðu iðnbyltingarinnar.  

Samkomulagið sem undirritað var miðar að því að tengja starf smiðjanna betur við svæðisbundna lykilaðila á sviði menntunar, rannsókna, menningar og atvinnulífs og að tryggja aðgengi að þeim í öllum landshlutum. Þá er rekstrargrundvöllur þeirra styrktur og umgjörð þeirra fest betur í sessi með skýrari aðkomu ráðuneytanna tveggja, sveitarfélaga á hverjum stað og fræðslustofnana. 

Þóra Óskarsdóttir hjá Fab-Lab verður gestur í myndhlaðvarpi IÐUNNAR bráðlega þar sem farið verður ítarlega yfir starfsemi Fab-Lab, græjurnar og notkunarmöguleikana.

 

Hafa samband

Hafðu samband

Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband